Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:45:58 (706)

2002-10-17 15:45:58# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir það. Ég er sammála þingmönnum í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um að rekstrargrundvöll strandsiglinga þurfi að kanna. En ég vil taka það skýrt fram að ef það vakir fyrir þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að endurvekja Skipaútgerð ríkisins og gera þetta í einhverju ríkisreknu batteríi þá er ég mótfallinn því. Með öðrum orðum hef ég ekki trú á að slíkur ríkisrekstur mundi bera sig nægilega vel og ná að lækka flutningskostnað. Ég er hins vegar hjartanlega sammála þingmanninum um að það beri að kanna hvers vegna strandsiglingar eru taldar svo óhagkvæmar. Hvers vegna eru þær að leggjast af?

Ég minni á breytingu sem Eimskipafélag Íslands gerði á sl. ári vegna strandsiglinga á Íslandi eins og áður hefur verið rætt um þar sem lögð voru gjöld á 20 feta gám og 40 feta gám og annað slíkt. Talað er um að í kringum 55 þús. kr. hafi allt í einu bæst við við breytinguna sem varð á gámaflutningi. Gera menn sér almennt grein fyrir því, herra forseti, að þessi breyting Eimskips gerði það að verkum, ef við tökum frystitogara sem kemur að landi á Miðnorðurlandi, að það kostar 1 millj. kr. meira að koma þessum 400 tonna farmi frá Miðnorðurlandi til Reykjavíkur í útflutningshöfn til að flytja þetta út? Þetta var sú breyting sem þar var gerð á.

En til að hafa það alveg á hreinu, vegna þess að hv. þm. spurði út í strandsiglingar, þá er ég tilbúinn að skoða það og er sammála mönnum um að skoða verði hverjar eru rekstrarforsendur og hvað þurfi að gera til að gera strandsiglingar hagkvæmari svo skipafélögin sjái sér hag í þeim, jafnframt því að lækka flutningskostnað. Eigi hins vegar að gera það með ríkisfyrirtæki þá er ég því andvígur. Við verðum að mínu mati að fara aðrar leiðir.