Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:13:56 (710)

2002-10-17 16:13:56# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ef við lítum um 15--20 ár aftur í tímann og hugsum um landsbyggðina eða landsbyggðarþorpin, svo ég nefni þau, eins og þau litu þá út, hvernig staðir voru þetta þá? Þarna bjó fólk og staðirnir voru eftirsóttir af ungu fólki. Það hafði mjög góðar tekjur við fiskvinnslu en að vísu langan vinnutíma, mjög langan vinnutíma. Og það var mjög einkennandi fyrir þá staði að þegar hringt var bjöllum klukkan 12 þusti út á göturnar her manns í hvítum sloppum úr frystihúsunum og fiskvinnslunni. Síðan hefur kvótakerfið heldur betur tekið völdin af þessari þjóð og eftir situr hnípin þjóð í vanda. Það verður bara að segjast eins og er. Yfirleitt hringja engar bjöllur í þessum litlu sjávarútvegsbyggðum þó maður sé þar á ferðinni um hádegisbilið. Enginn her kemur út úr fiskvinnsluhúsunum í hvítum sloppum vegna þess að fiskvinnsluhúsin eru lokuð og fólkið sem býr þarna --- jú það er eitthvað af fólki eftir víðast hvar og það býr í sínum stóru húsum sem eru gersamlega óseljanleg og má segja að þau séu þeim átthagafjötur í mörgum tilfellum --- hefur eitthvað að gera en engin uppgrip eins og áður var vegna þess að fiskurinn er farinn og hann er unninn einhvers staðar annars staðar. Hluti af honum er flakaður úti á sjó og svo er spanað með hann beint til útlanda og aldrei vinnur nokkur mannshönd íslensk við að koma honum í verð eftir meðhöndlun um borð í frystitogurunum.

[16:15]

Ég verð að segja að ég hef lengi haft miklar áhyggjur af þessu. Ég hef sérstaklega undrast hve mikið fálæti stjórnvöld í landinu hafa sýnt lífskjörum þessa fólks sem þó er eftir úti á landsbyggðinni. Auðvitað hefur ótölulegur fjöldi flúið, gerst nánast pólitískir flóttamenn á Reykjavíkursvæðinu. Eins og ég segi er þó eitthvað af fólki eftir, aðallega vegna þess að það á hús sem það getur ekki selt, ekki einu sinni fyrir andvirði kjallaraíbúðar á höfðborgarsvæðinu þó að það hafi byggt glæsileg hús á uppgangstímum þorpanna.

Hér er ein af markverðustu tilraunum sem ég hef séð upp á síðkastið til að hugsa þetta dæmi upp á nýtt, að leggja til að ríkisstjórnin skipi nefnd sem hafi það hlutverk að fara ofan í nokkur þeirra atriða sem valda mestri mismunun milli íbúa á höfuðborgarsvæðinu og íbúa á Reykjavíkursvæðinu. Í þessari tillögu er ekki verið að tala um kvótakerfið. Það væri náttúrlega full ástæða til að rannsaka það í bak og fyrir og draga af því ályktanir. Hér er verið að tala um að kanna þróun vöruverðs, rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og hvaða þættir hafi helst áhrif á þróun þessa vöruverðs.

Eins og þjóðinni er kunnugt er vöruverð mun hærra á landsbyggðinni en í Reykjavík og þarf ekki mikla spekinga til að sjá það. Flestir hafa farið svo sem eins og sumarferð upp í sveitir, jafnvel til annarra landshluta og það líður venjulega ekki á löngu þar til þeir þurfa að hafa einhver viðskipti á viðkomandi svæði og rekur í rogastans hvílíkur gríðarlegur munur er á vöruverði í almennum verslunum á Reykjavíkursvæðinu og úti á landsbyggðinni.

Hv. 1. flm. þessarar þáltill. hefur gert sérstaka könnun á þessum mun og ferðaðist í þeim tilgangi vítt og breitt um landið í sumar. Hann keypti vörur á mismunandi stöðum og sýnir hér mun á nokkrum vörutegundum sem hann festi kaup á á 27 stöðum á landinu. Þá kemur náttúrlega í ljós þvílíkur munur að meira að segja við, hin svartsýnustu, höfðum ekki ímyndað okkur að hann væri svona skelfilegur.

Svo ég taki eitt dæmi af handahófi úr þessum lista þá er hægt að fá Ora fiskbollur í dós, sem er afskaplega hversdagslegur matur en sumir láta sér nægja í matinn einu sinni í viku, í stórmarkaði á 199 kr. En í þeirri verslun á landsbyggðinni sem ég tel staðsetta fjærst höfuðborgarsvæðinu kostar þessi sama dós 340 kr. Þar munar 78%. Samt brennir fólkið sem býr á Þórshöfn og borðar fiskbollu úr dós þar jafnmörgum kaloríum og sá sem kaupir fiskbolludós í Reykjavík. Þetta er hreint ótrúlegt. Þó er þetta ekki það dæmi sem er verst. Ef maður talar um Ora grænar baunir, sem eru sérstakt vörumerki Íslendinga í matargerð, þá þarf að borga 104% hærra verð á þeim stöðum sem fjærst eru Reykjavík. Fólkið sem býr á þessum stöðum hefur að stórum hluta lægri laun heldur en tíðkast hér á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig er þetta hægt?

Ég þakka hv. 1. flm. þáltill. alveg sérstaklega fyrir þá töflu sem hér er birt. Þó að ég hafi talið mig vita að þarna væri munur á hafði ég ekki gert mér grein fyrir að hann væri svona skelfilegur. Þó þykir mér enn vænna um að hv. flm. sýndi fram á það með því að fara yfir reikninga viðkomandi kaupmanna að það er ekki er um það að ræða að þeir séu með skelfilega háa álangingu, síður en svo. Framlegðin þar er ekkert meiri en í Reykjavíkurverslununum. Það sem gerir útslagið er hinn gríðarlegi munur á flutningskostnaði. Þar á þungaskatturinn stóran hlut að máli og auðvitað er krafan sú að þetta verði leiðrétt.