Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 13:38:49 (720)

2002-10-29 13:38:49# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi sem gerður var í Rio de Janeiro 14. maí 1966. Umræddur samningur sem nefndur hefur verið Atlantshafstúnfiskveiðisamningurinn tekur til verndunar um 30 tegunda túnfisks og annarra áþekkra fisktegunda í Atlantshafi og aðliggjandi innhöfum með sjálfbæra hámarksnýtingu stofna þessara tegunda að markmiði. Í því skyni var með samningnum stofnað sérstakt ráð, Alþjóðaráð um verndun túnfiska í Atlantshafi, sem oftast er nefnt Atlantshafstúnfiskveiðiráðið. Heiti ráðsins á ensku er ,,International Commission for the Conservation of Atlantic Tunas`` og er það skammstafað ICCAT. Ráðinu er ætlað að vinna að markmiðum samningsins. Aðilar að samningnum eru alls 32, en þar á meðal er Evrópusambandið fyrir hönd sinna aðildarríkja. Skrifstofa ráðsins er í Madríd.

Frá árinu 1995 hefur Ísland haft áheyrnaraðild að Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu. Áheyrnaraðild fylgir málfrelsi á fundum ráðsins og við vinnu nefnda sem settar eru á laggirnar á þess vegum. Á vettvangi ráðsins hefur Ísland ítrekað lýst óánægju með núverandi skiptingu veiðiheimilda, sem eingöngu byggist á veiðireynslu og gefur Íslandi þannig engan veiðirétt, og lagt áherslu á að tekið verði tillit til réttar strandríkja við úthlutun aflaheimilda. Þetta sjónarmið Íslendinga nýtur nú vaxandi hljómgrunns innan ráðsins og nýverið komst sérstakur vinnuhópur ráðsins að þeirri niðurstöðu að m.a. skuli tekið til réttinda og hagsmuna strandríkja við úthlutun veiðiheimilda.

Nú þegar þessi vinnuhópur hefur lokið verki sínu er ljóst að innan ráðsins mun koma til endurúthlutunar aflaheimilda. Ætli Íslendingar að stunda túnfiskveiðar í framtíðinni er mikilvægt að Ísland sé fullgildur aðili að ráðinu þegar viðræður um endurúthlutun eiga sér stað. Þær viðræður munu hefjast formlega á ársfundi ráðsins 28. október til 4. nóvember 2002.

Í Atlantshafi eru stundaðar veiðar á um 30 tegundum túnfiska og áþekkra tegunda. Útbreiðsla flestra þeirra er bundin við hitabeltis- og heittempruð hafsvæði og eingöngu ein túnfisktegund, bláuggatúnfiskur, gengur inn á íslensk hafsvæði. Heildarútbreiðslusvæði bláuggatúnfisks í Norður-Atlantshafi er talið ná frá Grænhöfðaeyjum til Noregs í austri og frá ströndum Brasilíu til Nýfundnalands vestan megin Atlantshafs. Talið er að um tvo stofna sé að ræða og liggur skipting þeirra um 45. lengdargráðu vestlægrar lengdar.

Túnfiskur hefur ekki verið veiddur að ráði innan íslensku efnahagslögsögunnar og er reynsla Íslendinga af túnfiskveiðum því mjög takmörkuð. Túnfiskur er hins vegar með dýrari fiskafurðum og vaxtarmöguleikar íslenskrar túnfiskútgerðar því talsverðir.

Hafrannsóknastofnunin hefur á hverju hausti frá 1996 stundað tilraunaveiðar á túnfiski innan íslensku efnahagslögsögunnar í samvinnu við japanskar túnfiskútgerðir. Tvö til fimm japönsk túnfiskveiðiskip hafa tekið þátt í veiðunum og veitt hluta af úthlutuðum kvóta sínum innan íslensku lögsögunnar. Með veiðunum hefur verið sýnt fram á að stór túnfiskur gengur inn í íslensku lögsöguna á haustin, þótt ekki sé hægt að fullyrða hvort um stöðugt fyrirbæri sé að ræða. Samhliða veiðum japönsku skipanna hefur eitt íslenskt skip stundað veiðar á túnfiski en fleiri skip sem hafa búnað til veiðanna eru að bætast í flotann og vonir standa til þess að íslensk skip muni stunda túnfiskveiðar að staðaldri í framtíðinni.

Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna sem gerður var í New York 4. ágúst 1995 hefur verulega þýðingu í sambandi við aðild Íslands að Atlantshafstúnfiskveiðisamningnum. Fullt heiti fyrrnefnda samningsins er ,,samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim``, en túnfiskstofnar teljast til víðförulla fiskstofna. Úthafsveiðisamningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 14. febrúar 1997 og öðlaðist gildi 11. desember 2001.

Einn meginþáttur úthafsveiðisamningsins eru reglur III. hluta hans um samstarf ríkja. Þar er gert ráð fyrir að strandríki og úthafsveiðiríki starfi saman á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana að verndun og nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Ef fyrir hendi er svæðisbundin stofnun, sem er bær til að ákveða verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna tiltekinna stofna, skulu ríki sem veiða úr stofnunum á úthafinu og viðkomandi strandríki uppfylla samstarfsskyldu sína með því að gerast aðilar að stofnuninni, ef þau eru það ekki fyrir. Ríki sem hvorki eru aðilar að viðkomandi stofnun né fallast á að hlíta verndunar- og stjórnunarráðstöfunum er hún hefur ákveðið fá samkvæmt úthafsveiðisamningnum ekki aðgang að þeim auðlindum sem þessar ráðstafanir ná til.

[13:45]

Ísland er að þjóðarétti bundið af ákvæðum úthafsveiðisamningsins og ákvæði hans vega því þungt þegar kemur að ákvörðun um aðild Íslands að Alþjóðatúnfiskveiðiráðinu. Ráðið er svæðisbundin stofnun sem er bær til að ákveða verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna túnfiskstofna í Atlantshafi. Aðild að ráðinu er því nauðsynlegt þjóðréttarlegt skilyrði fyrir því að íslensk fiskiskip geti í framtíðinni stundað veiðar úr stofnum sem ráðið stjórnar veiðum úr.

Íslendingar hafa um áratuga skeið verið í fararbroddi þjóða á sviði hafréttar og ötulir talsmenn sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins. Forsenda slíkrar nýtingar á fiskstofnum sem veiðast á úthafinu er að veiðum sé stjórnað af þar til bærum svæðisbundnum stofnunum sem móta sameiginlega veiðistjórnun á vísindalegum grundvelli. Ísland er nú þegar aðili að slíkum svæðisbundnum stofnunum og má þar nefna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndina (NEAFC) og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunina (NAFO). Eins og að framan greinir telst Atlantshafstúnfiskveiðiráðið vera bær fiskveiðistjórnarstofnun í skilningi III. kafla úthafsveiðisamningsins. Það er því rökrétt skref fyrir Ísland að gerast aðili að Atlantshafstúnfiskveiðisamningnum og í raun forsenda þess að íslensk fiskiskip geti stundað túnfiskveiðar í framtíðinni.

Sjútvrn. hefur staðfest að aðild að Atlantshafstúnfiskveiðisamningnum kalli ekki á lagabreytingar hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.