Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 13:51:23 (724)

2002-10-29 13:51:23# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það mun áreiðanlega ekki standa á Samfylkingunni og örugglega ekki stjórnarandstöðunni allri að veita þessu máli brautargengi hér í dag. Það er alveg ljóst að það eru þjóðarhagsmunir, þótt ekki séu miklir í augnablikinu, sem kalla á að við samþykkjum þetta í dag. Ég er sannfærður um að þingheimur mun gera það. En það er auðvitað áhorfsmál hvort rétt sé að þessum málum staðið. Hæstv. landbrh., sem ég ætla ekki að skattyrðast við um þetta mál því að sannanlega er þetta ekki beinlínis mál sem hann er allajafna með á forræði sínu, hefur upplýst að málið komi með þessu hraði fyrir þingið vegna þess að það hefur verið þinghlé í heila viku. Er það þá svo, herra forseti, að hæstv. sjútvrh., sem eðlilega fer með þetta mál, þó að það sé starfandi utanrrh. sem leggur það fram, hafi ekki nema viku fyrirvara á máli eins og þessu? Er vika síðan embættismenn sjútvrn. fundu það skyndilega upp að nauðsynlegt væri fyrir okkur að vera í þessu ráði?

Herra forseti. Auðvitað mun Samfylkingin greiða þessu máli atkvæði. En í meðferð þess birtast ákaflega skrýtin vinnubrögð af hálfu sjútvrn.