Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:02:12 (729)

2002-10-29 14:02:12# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Málið sem við ræðum er tvíþætt og kannski má segja að það sé þríþætt. Þriðji liðurinn --- svo að ég byrji á honum --- er sá sem við hv. þm. stjórnarandstöðunnar höfum aðeins fundið að. Vegna þess að hér eru nokkrir hagsmunir í húfi höfum við lýst því yfir að við teljum sjálfsagt að samþykkja þetta, ekki síst til þess að spara þeim embættismönnum og stjórnmálamönnum íslenskum sem kunna að vera mættir á ársfund Alþjóðatúnfiskveiðiráðsins þá blygðun sem fylgir því að híma á slíkum fundi umboðslausir.

Auðvitað hefði átt að leggja þetta mál fyrir margt löngu fram hér í þinginu og það hefði átt að fá eðlilega málsmeðferð. Menn hefðu átt að eiga kost á því að skoða hversu miklir hagsmunir eru í húfi, hversu mikill kostnaður fylgir þessu, hverjir hinir raunverulegu hagsmunir eru. En tími mun ekki gefast til þess. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar munum leggja kapp á að þetta verði samþykkt í dag vegna þess að hagsmunir eru í húfi. En þetta eru ekki vinnubrögð sem hægt er að standa upp og klappa fyrir. Ég veit að hæstv. flytjandi málsins mun samþykkja það.

Annar þáttur þessa máls lýtur síðan að tegundinni sem um ræðir. Nú hafa nokkrir hv. þm. áður rætt um nauðsyn þess að Íslendingar efli túnfiskveiðar sínar, bæði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem kannski kemur frá þeim eina stað á landinu sem starfrækt hefur verið íslensk túnfiskútgerð og líka hv. þm. Kristján Pálsson sem hér hefur lagt fram þingmál sem tengjast túnfiskveiðum Íslendinga.

Nú er ljóst að sú tegund túnfisks sem við höfum séð veidda innan íslensku efnahagslögsögunnar er ákaflega dýrmæt. Þetta er fiskur sem getur orðið ákaflega stór. Japanir leggja í langar útilegur víðsfjarri heimalandi sínu til þess að veiða hann innan íslensku efnahagslögsögunnar vegna þess að eftir miklu er að slægjast.

Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar hafa tvisvar sinnum á undangengnum árum lagt til eins og hv. þm. Kristján Pálsson að ráðist yrði í rannsóknir á túnfiski innan efnahagslögsögunnar íslensku. Ástæðan fyrir því er m.a. sú, eins og hæstv. landbrh. gat um í sínu máli, að bláuggatúnfiskurinn er hitasækinn fiskur. Þegar skil heitra og kaldra strauma færast norður eftir fylgir bláuggatúnfiskurinn þessum skilum eins og ég veit að hæstv. landbrh. veit glögg skil á.

Með breyttu loftslagi á norðurhveli jarðar kann að vera að þessi skil færist og í sama mæli kann að vera að þessi fisktegund, svo dýrmæt sem hún er, flytji sig norður eftir. Þess vegna skiptir það máli að við í fyrsta lagi hefjum tilraunaveiðar á þessum fiski, í öðru lagi fylgjumst með veiðum annarra þjóða innan íslensku efahagslögsögunnar, og það höfum við svikalaust gert. Í þriðja lagi er síðan nauðsynlegt að við reynum með einhverjum hætti að verða okkur úti um kvóta við hið alþjóðlega samningaborð.

Þá kem ég að hinum þriðja þætti sem er auðvitað mikilvægastur í þessu máli og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði að umræðuefni áðan, þ.e. hvernig röksemdafærsla hæstv. sjútvrh. er algerlega öfugsnúin í þessu máli miðað við málflutning hans gagnvart stjórnkerfi fiskveiða hér við land.

Það kemur fram, herra forseti, í athugasemdum við þessa þáltill. að Ísland hafi með áheyrnaraðild sinni að Alþjóðatúnfiskveiðiráðinu ítrekað lýst óánægju með núverandi skiptingu veiðiheimilda og forsendur fyrir yfirlýsingum hinna íslensku embættismanna sem hafa rök sín frá hæstv. sjútvrh. eru þau að það sé eingöngu byggt á veiðireynslu. Vegna þess að eingöngu er byggt á veiðireynslu þá hefur Ísland engan veiðirétt.

Herra forseti. Þetta er meginkjarni þeirrar togstreitu sem hefur staðið um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Þar er einvörðungu byggt á veiðireynslu. Þar er einvörðungu byggt á veiðireynslu örfárra manna á tilteknu árabili og þessir menn hafa í krafti veiðireynslunnar fengið úthlutaðan kvóta sem þeir hafa síðan getað framselt, keypt og leigt frá sér fyrir ærið fé. Þetta eru mennirnir sem hafa flutt 40 milljarða íslenskra króna í lokaða sjóði í útlöndum þar sem ekki er hægt að rekja. Þetta eru mennirnir sem hafa meginhluta fjármagnstekna á Íslandi án þess að þurfa að borga sama skatt og við hin. Úr þessum hópi koma þeir 96 Íslendingar sem á hverjum einasta degi hverrar einustu viku hvers einasta mánaðar á hverju ári hafa 300 þús. kr. í fjármagnstekjur, þ.e. á dag, og borga 10% skatt á meðan aðrir 11--12 þúsund Íslendingar þurfa að draga fram lífið á 2--3 þús. kr. Þetta er togstreitan. Þetta er meginkjarninn í þessu sérkennilega máli, till. til þál. um aðild okkar að Alþjóðatúnfiskveiðiráðinu til þess að hæstv. sjútvrh. fari ekki í annað sinn fýluferð á slíkan fund og verði umboðslaus. Röksemdirnar sem hæstv. sjútvrh. flytur fyrir aðild okkar og röksemdirnar fyrir óánægju Íslendinga með skiptingu kvótans úr túnfiskstofninum eru nákvæmlega þær sömu og obbi Íslendinga hefur uppi sem röksemdir gegn núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Ef röksemdir hæstv. sjútvrh. duga til þess að kollvarpa núverandi skiptingu túnfiskkvótans, hvers vegna í ósköpunum skyldi hann þá ekki hlusta á það þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar, þegar íslenskur almenningur notar nákvæmlega sömu rök til þess að beina geirum sínum að honum og álasa honum fyrir að vera stöðugt í vörn fyrir þá sem fá sinn kvóta með nákvæmlega sömu röksemdum og þeir menn sem fá túnfiskkvótann sem hann er á móti.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að benda á hvernig röksemdafærsla hæstv. sjútvrh. í þessu máli stangast algerlega á við allt það sem hann segir heima fyrir þegar hann er að verja hið illvíga kvótakerfi eins og það er í dag.

Herra forseti. Við munum styðja það að þetta mál fari í gegn þó það sé alveg ljóst að álappaleg stjórnsýsla valdi því að það er ekki fyrir löngu fram komið, þó að ljóst sé að okkur gefist ekki tími til þess að rannsaka það eðlilega, þó það sé ljóst að röksemdafærsla ráðherrans í þessu máli sé algerlega á skjön við allt það sem hann hefur sagt hér heima.

Herra forseti. Það er líka gaman að sjá hæstv. ríkisstjórn taka undir öðrum þræði í athugasemdum við frv. með þeim röksemdum og hugmyndum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sett fram áður einmitt varðandi þessa tilteknu fisktegund.