Hjúkrunarrými í Reykjavík

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:06:03 (765)

2002-10-30 14:06:03# 128. lþ. 18.1 fundur 109. mál: #A hjúkrunarrými í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í maí sl. undirrituðu borgarstjórinn í Reykjavík og hæstv. heilbrrh. viljayfirlýsingu um endurbætur og byggingu 326 nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík á tímabilinu 2003--2007. Ástandið í málefnum aldraðra hjúkrunarsjúklinga er mjög alvarlegt og því tek ég þetta mál upp nú.

Samkvæmt skriflegu svari heilbrrh. til mín á sl. ári voru 489 aldraðir á biðlista eftir vist á hjúkrunarheimilum, þar af 396 í mjög brýnni þörf. Af þessum 396 voru 350 í Reykjavík og Reykjanesi. Það hlýtur því að vera eitt af forgangsverkefnum í málefnum aldraðra að ráðast í markvissa uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það er t.d. miklu dýrara að aldraðir langlegusjúklingar sem þurfa á hjúkrunarrýmum að halda þurfi að vera á sjúkrahúsum eins og raunin er í mörgum tilvikum. Fjöldi þeirra sem bíður eftir varanlegri vistun á hjúkrunarheimilum en er nú á Landspítalanum svo að dæmi sé tekið eru 106 aldraðir. Í septembermánuði sl. þegar ég skoðaði málið reiknaðist mér að rekstrarkostnaður, miðað við upplýsingar sem ég fékk frá Landspítalanum, fyrir þessa 106 einstaklinga væri 270 millj. meiri á ári en væri ef þessir 106 einstaklingar væru á hjúkrunarheimilum. Fengju þessir 106 einstaklingar varanlega vistun á hjúkrunarheimilum væri hægt að bjóða 70 öldruðum til viðbótar pláss á hjúkrunarheimili fyrir sömu fjárhæð. Þannig væri hægt að veita um 170--180 öldruðum pláss á hjúkrunarheimilum fyrir sömu fjárhæð og fer í kostnað við aðhlynningu þeirra 106 öldruðu einstaklinga sem nú eru á Landspítalanum. Verulega má því spara með endurskipulagningu í öldrunarþjónustunni.

Ég vil því beina fyrirspurn til hæstv. heilbrrh.:

Hvernig hyggst ráðherra standa að endurbótum og fjölgun nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík, samanber viljayfirlýsingu ráðherra og borgarstjóra frá því í maí sl.?

Í öðru lagi spyr ég: Hver er áætluð aukning hjúkrunarrýma á næsta ári í samræmi við þá yfirlýsingu?

Ég get ekki séð að í fjárlögum fyrir næsta ár, árið 2003 þegar þessi áætlun átti að hefjast, sé við það staðið.

Í þriðja lagi spyr ég: Hversu langur er biðlisti nú eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík og hver er árleg áætluð þörf næstu fjögur ár?