Hjúkrunarrými í Reykjavík

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:14:05 (767)

2002-10-30 14:14:05# 128. lþ. 18.1 fundur 109. mál: #A hjúkrunarrými í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. 339 manns bíða í mjög brýnni þörf á Reykjavíkursvæðinu og á Reykjanesi. Á sama tíma eru hjúkrunarheimilin í mjög miklum rekstrarvanda. Ég sat aðalfund félags stjórnenda í öldrunarþjónustu fyrir nokkrum dögum og þar var þungt í fólki vegna þess hve rekstrarvandinn er stór. Á sama tíma og 339 rými vantar eru þónokkur rúm auð á þeim hjúkrunarheimilum sem eru til staðar á þessu svæði.

Ég spyr: Hversu mörg rúm standa auð á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu í dag? Svo vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra: Það vantar tilfinnanlega hjúkrunarheimili fyrir yngri hjúkrunarsjúklinga, mikið fatlaða unga einstaklinga sem hafa lent í slysum og sjúkdómum. Þeir eru vistaðir á öldrunarstofnunum eða hafa ekki vistun. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er fram undan í að leysa vanda þess hóps sem ekki hefur úrræði í dag?