Hjúkrunarrými í Reykjavík

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:18:49 (770)

2002-10-30 14:18:49# 128. lþ. 18.1 fundur 109. mál: #A hjúkrunarrými í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður, sem hafa hnigið að málefnum aldraðra almennt og rekstrarvanda á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Ég svara fyrirspurnum um það efni hér á eftir og ætla því að vera stuttorður um það núna. Ég hef verið rukkaður um hvað ráðuneytið vilji gera, stefnumörkun ráðuneytisins.

Stefnumörkun ráðuneytisins kemur fram í skýrslunni um uppbyggingu öldrunarþjónustu. Við höfum viljað nota, eins og ég sagði, Vífilsstaði en það er til að leysa bráðan vanda. Það er m.a. til að leita lausnar á þeim vanda sem hv. fyrirspyrjandi nefndi varðandi fráflæði frá sjúkrahúsum en hins vegar höfum við í ráðuneytinu talið að m.a. sjálfseignarstofnanir, sem hv. 8. þm. Reykv. þekkir, hefðu mikið hlutverk í uppbyggingu þessara mála. Þær eiga hins vegar við vissan vanda að etja, að fá húsnæðiskostnað sinn borinn uppi í daggjöldunum. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Til þess skorti okkur fjármagn eins og hv. þm. veit.

Varðandi fjármálin og fjárhagshliðina í þessu var ákveðið í upphafi í haust að ræða þessi mál í samstarfsnefnd við aldraða og skila tillögum um málið þegar niðurstaða liggur fyrir.