Lyfjaávísanir lækna

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:32:10 (776)

2002-10-30 14:32:10# 128. lþ. 18.2 fundur 122. mál: #A lyfjaávísanir lækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur farið fram um þetta alvarlega mál og vil bregðast við þeim fyrirspurnum sem fram hafa komið.

Ég endurtek að eitt tilfelli hefur komið upp þar sem lagt er til að svipta lækni um lækningaleyfi. Það er alvarlegur hlutur. Ég treysti Lyfjastofnun og landlæknisembættinu fullkomlega í þessum efnum. Þau telja ekki ástæðu til svo alvarlegrar aðgerðar nema í einu tilfelli.

Varðandi tillögu Læknafélags Íslands um afeitrunarmiðstöð vil ég segja að lagabreytingarnar fjalla eingöngu um aðgang landlæknis að persónuupplýsingum vegna eftirlits, hvernig með þær upplýsingar skuli farið. Varðandi afeitrunarmiðstöðina þá er það mál í skoðun hjá ráðuneytinu en ekki þarf lagabreytingar til þess. Það er spurning um fjármagn og skipulag. Við höfum haft þessar tillögur til skoðunar hjá okkur. Ég met þær mikils og þær eru mikilvægt innlegg í þetta mál.