Reglugerð um landlæknisembættið

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:37:41 (778)

2002-10-30 14:37:41# 128. lþ. 18.3 fundur 125. mál: #A reglugerð um landlæknisembættið# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. hefur lagt fram fyrirspurn um hvort heilbrrh. telji tímabært að endurskoða reglugerð frá 28. desember 1973, um landlækni og landlæknisembættið.

Helstu lagaákvæði um landlækni og hlutverk hans er að finna í lögum um heilbrigðisþjónustu og læknalögum. Eru þau ákvæði lítið breytt frá því að reglugerð um landlækni var sett árið 1973 eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er landlæknir ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um heilbrigðismál. Hann annast útgáfu heilbrigðisskýrslna og hefur eftirlit með heilbrigðisstéttum. Í læknalögum eru nánari ákvæði um eftirlitshlutverk landlæknis. Þau gilda einnig um aðrar heilbrigðisstéttir eftir því sem við á. Þessi ákvæði hafa lengi verið nær óbreytt. Loks eru landlækni falin ýmis verkefni sem heyra undir fjölda annarra laga og hafa mörg þeirra tekið miklum breytingum. Má þar t.d. nefna nýleg sóttvarnalög.

Þótt ekki hafa orðið miklar breytingar á grundvallar\-ákvæðum laga um landlækni er ljóst að störf landlæknis hafa tekið miklum breytingum á þeim nær 30 árum sem liðin eru frá setningu reglugerðar um embættið. Ýmis ákvæði reglugerðarinnar eru fallin úr gildi vegna breytinga á lögum. Þar fyrir utan þarf vart að taka fram að gríðarlegar breytingar hafa orðið á starfi og starfsaðstöðu fagfólks í heilbrigðisþjónustunni og skipulagi á þessu mikilvæga sviði. Það er því ljóst að reglugerðin er að ýmsu leyti úrelt og þarfnast endurskoðunar. Þess vegna er fyllilega tímabært að endurskoða ekki aðeins reglugerð um landlækni heldur einnig þau lagaákvæði sem gilda um landlækni og landlæknisembættið.

Eins og áður hefur komið fram í máli mínu á Alþingi hyggst ég á næstunni skipa nefnd til að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu. Munu ákvæði varðandi landlækni þá að sjálfsögðu koma til skoðunar, m.a. í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í heilbrigðisþjónustu frá gildistöku þeirra.

Þá hefur á undanförnum árum verið unnið að samningu frv. um heilbrigðisstéttir þar sem gert er ráð fyrir að ein lög gildi um allar heilbrigðisstéttir. Við gerð frv. hefur m.a. verið lögð áhersla á að endurskoða ákvæði um eftirlit landlæknis með heilbrigðisstéttum.

Í þriðja lagi er það skoðun heilbrrh. að brýnt sé að taka upp og endurskoða löggjöfina um landlæknisembættið í ljósi frv. um lýðheilsustöð sem aftur verður lagt fyrir Alþingi innan tíðar. Með slíkri endurskoðun mætti e.t.v. skerpa á og gera skýrari lagaákvæðin um landlækni sem eftirlitsaðila með heilbrigðisþjónustunni.

Niðurstaða mín er sú að ég tel forgangsverkefni að endurskoða lögin og gefa svo út nýja reglugerð í kjölfar þeirra.