Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:48:46 (783)

2002-10-30 14:48:46# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. spyr um rekstrarstöðu dvalar- og hjúkrunarheimila. Spurt er hver sé rekstrarstaða dvalar- og hjúkrunarheimila á daggjöldum miðað við fyrstu átta mánuði þessa árs. Sé um hallarekstur er að ræða er spurt hvort hann verði bættur í fjáraukalögum.

Því er til að svara að flestar daggjaldastofnanir sem upp eru taldar í fjárlagalið 08-495 hafa skilað 8--9 mánaða árshlutauppgjöri fyrir árið 2002 og hafa uppgjörin verið reiknuð til heils árs rekstrar. Samanlagður rekstrarhalli þessara daggjaldastofnana fyrir allt árið 2002 verður væntanlega um 413 millj. kr. Þar af verður rekstrarhalli hjúkrunar- og dagvistarrýma 218 millj. kr. en rekstrarhalli dvalarrýma 195 millj. kr.

Í frv. til fjáraukalaga 2002 eru 460 millj. kr. á fjárlagalið 08-499, Hjúkrunarheimili. Fjárhæðin er ætluð til að mæta rekstrarvanda þeirra dvalar- og hjúkrunarheimila sem eru á daggjöldum og föstum fjárlögum og hafa skilað inn rekstrarupplýsingum. Fjárhæðina á eingöngu að nota til að mæta rekstrarvanda dagvistar- og hjúkrunarrýma.

Rekstrarvandi dvalar- og hjúkrunarheimila sem rekja má til dvalarrýma er enn í skoðun og niðurstöðu af þeirri skoðun er að vænta innan tíðar, þ.e. á næstu vikum eða áður en 2. umr. fjárlaga fer fram.

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. spyr enn fremur: ,,Eru fyrirhugaðar breytingar á greiðslu daggjalda til þessara stofnana? Ef svo er, hverjar eru þær og hvenær má vænta þeirra?``

Því er til að svara að engar breytingar eru fyrirhugaðar á greiðslufyrirkomulagi stofnana á daggjöldum. Þær stofnanir sem nú eru á daggjöldum verða áfram á daggjöldum árið 2003. Hins vegar munu dvalar- og hjúkrunarheimili sem nú eru á föstum fjárlögum verða daggjaldastofnanir frá og með 1. janúar 2003.

Sú breyting hefur verið gerð á frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 að rekstrargrunnur hjúkrunarrýma hefur verið lagfærður um 350 millj. kr. Rekstrargrunnur dvalarrýma fyrir árið 2003 er enn í skoðun og vonandi liggur niðurstaða af þeirri vinnu fyrir áður en 2. umr. fjárlaga fer fram.