Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:52:56 (785)

2002-10-30 14:52:56# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hjá þessari ríkisstjórn er allt í nefnd, athugun og skoðun. Það verður að taka á þessum málum, herra forseti. Ófremdarástand ríkir. Það er mjög mikill rekstrarvandi hjá dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Ég verð að nefna hér og hvetja hæstv. ráðherra sérstaklega til að taka á daggjöldunum fyrir hvíldarinnlagnir. Ég hef heyrt frá öldrunarlæknum sem sinna þessum heimilum að það er ekki hægt að reka hvíldarinnlagnirnar á þessum daggjöldum, að reikna með sömu daggjöldum fyrir hvíldarinnlagnir og aðrar innlagnir og önnur rúm. Þess vegna er ekki verið að nýta að fullu hvíldarinnlagnarúmin sem til staðar eru, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, á hjúkrunarheimilum sem þar eru.

Annað langar mig að nefna, það sem snýr að Sóltúni, sem fær hærri greiðslur fyrir sjúklinga sína en önnur heimili. Það er vegna þess að þar eru þyngri sjúklingar. Nú er ástandið þannig, þegar á fjórða hundrað bíða eftir plássum, að allir sjúklingarnir sem koma inn á heimilin þurfa mikla umönnun og þess vegna þarf almennt hærri greiðslur til þeirra heimila sem reka þessa þjónustu.