Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:56:51 (788)

2002-10-30 14:56:51# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:56]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Fjöldi fólks bíður eftir því að komast á elliheimili, dvalarheimili og hjúkrunarheimili. Það þarf að fara að taka almennilega á þessum málum. En það er eins og heilbrrn. hafi lítið bolmagn til þeirra hluta. Hver er þá ástæðan fyrir því? Ástæðan er einfaldlega sú að það er ekki sett nóg fjármagn í þetta, á sama tíma og drýpur smjör og rjómi af hverju einasta strái að því er sagt er af stjórnarherrum þessarar þjóðar. Ríkisafkoman er svo góð, allt er svo fínt og frábært og gott en samt er hvert elliheimilið á fætur öðru rekið með tapi. Ég skil þetta ekki nema svo mikill áhugi ríki hjá ríkisstjórninni á að leggja velferðarkerfið í þessu landi niður.