Hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:04:54 (792)

2002-10-30 15:04:54# 128. lþ. 18.5 fundur 200. mál: #A hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. spyr hvað líði skipulagningu hjúkrunarrýma á Vífilsstaðaspítala og vísar til yfirlýsingar ráðherra í sumar.

Það er rétt hjá hv. þm. að ég hef ítrekað bent á rýmið sem nú stendur ónotað á Vífilsstöðum sem mögulega úrbót á þeim mikla vanda sem nú er við að etja varðandi hjúkrunarrými fyrir aldraða einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil endurskipulagning húsnæðis hefur átt sér stað samhliða sameiningu sérgreina á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Sérgreinar hafa verið fluttar á milli húsa og leitast hefur verið við að skyld starfsemi sé í nábýli. Þessi endurskipulagning hefur leitt til þess að sú starfsemi sem áður var rekin á Vífilsstöðum hefur smám saman færst í aðalbyggingar Landspítala -- háskólasjúkrahúss, þ.e. í Fossvoginn og á Hringbrautina.

Ofangreind staða, ásamt þeirri staðreynd að mikill skortur er á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða, hratt af stað umræðum um hugsanlega nýtingu Vífilsstaðaspítala fyrir hjúkrun aldraðra. Á aðalhæðum spítalans eru nú rými fyrir 44 sjúklinga auk þess sem vista má 12 einstaklinga á 1. hæð hússins. Óbreytt stenst húsnæðið ekki nútímakröfur um aðbúnað og aðstöðu ef um langtímabúsetu aldraðra yrði að ræða. Að húsnæðinu breyttu, þ.e. ef eingöngu yrði um einbýli með baðaðstöðu að ræða, má gera ráð fyrir að rými verði samtals fyrir 52 einstaklinga í aðalbyggingunni á Vífilsstöðum.

Samkvæmt frummati arkitekts má áætla að kostnaður slíkra breytinga gæti numið 3,5 millj. kr. fyrir hvert vistrými, eða um 180 millj. kr. alls. Til samanburðar má geta þess að kostnaður við að byggja nýtt 52 rúma hjúkrunarheimili væri um 800 millj. kr.

Á hinn bóginn er unnt að nýta húsnæðið á Vífilsstöðum nær óbreytt ef einungis er um skammtímavistun aldraðra að ræða, þ.e. biðdeild meðan varanleg úrræði fyrir hina öldruðu eru fundin. Kostnaður vegna breytinga á húsnæði yrði þá óverulegur.

Sé gert ráð fyrir 52 rýmum á hefðbundnum öldrunardeildum sem starfræktar eru í ár og að kostnaður á rými á sólarhring sé rúmar 12 þús. kr. verður rekstrarkostnaður 52 rúma öldrunardeildar á Vífilsstaðaspítala a.m.k. 230 millj. kr. á ársgrundvelli.

Til viðbótar hefur verið rætt um að nýta einnig hús það sem í daglegu tali hefur verið kallað húsið á hólnum undir biðdeild. Þar rúmast 19 einstaklingar og gætu þar dvalið tímabundið, annaðhvort á meðan beðið er varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili. Þar mætti og vista sjúklinga sem væru að jafna sig eftir útskrift af sjúkrahúsi, þyrftu t.d. sýklalyf, sáraskiptingar, súrefni eða væru að jafna sig eftir skurðaðgerð eða krabbameinsmeðferð. Rekstrarkostnaður 19 rúma biðdeildar er 90 millj. kr. á ári.

Samtals er því unnt að koma við rekstri 71 hjúkrunarrýmis á Vífilsstöðum þar sem árlegur rekstrarkostnaður yrði samtals um 320 millj. kr.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. skipaði þann 23. september sl. nefnd sem ætlað er að vera farvegur formlegs samráðs ríkisstjórnarinnar og Landssamband eldri borgara um lífeyrismál og þjónustu fyrir aldraða, þar á meðal uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ákveðið var að umrædd nefnd skyldi skoða sérstaklega áðurnefndar hugmyndir frá heilbrrn. um nýtingu Vífilsstaða fyrir hjúkrunarrými. Mér er kunnugt um að nefndarmenn hafi skoðað húsnæðið á Vífilsstöðum og muni leggja fram tillögur sínar í málinu innan skamms.