Hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:13:43 (797)

2002-10-30 15:13:43# 128. lþ. 18.5 fundur 200. mál: #A hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég er hræddur um að hv. 8. þm. Reykv. hafi ekki tekið alveg eftir því því sem ég sagði, miðað við þá ræðu sem hann flytur. Ég sagði, með leyfi forseta: ,,Óbreytt stenst húsnæðið ekki nútímakröfur um aðbúnað og aðstöðu ef um langtímabúsetu aldraðra yrði að ræða.``

Síðan sagði ég:

,,Á hinn bóginn er unnt að nýta húsnæðið á Vífilsstöðum nær óbreytt ef einungis er um skammtímavistun aldraðra að ræða, þ.e. biðdeild meðan varanleg úrræði fyrir hina öldruðu eru fundin.``

Ég geri mér alveg grein fyrir annmörkum Vífilsstaða. Þar þarf breytingar en hins vegar hefur verið kannað hvaða kostnaður fylgir því að gera þar einbýli með baðaðstöðu og öðrum þægindum sem nútímahjúkrunarheimili þarf að hafa. Þær áætlanir hljóða upp á 3,5 milljónir á hvert rými. Síðan getum við hv. þm. rætt hvernig þessar tölur eru reiknaðar út.

Hins vegar lýsi ég því yfir að ég lít til þessa húsnæðis sem lausnar í málefnum aldraðra í þeirri stöðu sem við erum í núna, en það leysir okkur ekkert undan því að byggja hjúkrunarrými yfir aldraða. Þetta eina mál er engin varanleg lausn á þeim málum sem við höfum verið að ræða í dag. Ég tel að það verði auðvitað að halda áfram að reisa nýbyggingar eins og hv. 8. þm. Reykv. hefur staðið fyrir.