Löggæslumál í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:19:27 (799)

2002-10-30 15:19:27# 128. lþ. 18.6 fundur 202. mál: #A löggæslumál í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Eins og ég rakti ítarlega í umræðu hér á þinginu fyrir stuttu er staða lögreglunnar á Íslandi sterk. Við ræddum fyrir skömmu ítarlega í utandagskrárumræðu stöðu lögreglunnar í hinu nýja Suðurkjördæmi, þar á meðal stöðu lögreglunnar í Rangárvallasýslu. Það er óþarfi að ítreka það sem þá kom fram, nægir að vísa til þess að mestu leyti.

Hvað stöðu löggæslumála í umdæmi sýslumannsins á Hvolsvelli varðar, en fyrirspyrjandi gerir hann að umtalsefni, þá hefur hún verið til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu að undanförnu. Embættið á Hvolsvelli hefur undanfarin ár staðið frammi fyrir nokkrum erfiðleikum í rekstri og hefur sýslumaður leitað ýmissa leiða til að vinna sig út úr þeim. M.a. var tekin ákvörðun um að spara verulega í yfirstjórn embættisins. Til viðbótar, til að ná endanlega niður halla embættisins, var tekin ákvörðun um að fækka lögreglumönnum um einn tímabundið frá og með 1. september sl. Sýslumaðurinn hefur unnið vel og fagmannlega að þessu máli. Ákvörðunin var kynnt lögreglumönnum við embættið og samþykktu þeir þessa ráðstöfun, enda ljóst að hér er einungis um tímabundna ráðstöfun að ræða til að eyða fjárlagahalla.

Sýslumaður kynnti þetta jafnframt forstöðumönnum sveitarfélaga í umdæminu. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns komu ekki fram athugasemdir af þessu tilefni um að öryggi íbúa væri með þessu stefnt í hættu, enda ljóst að aldrei hefði verið gripið til slíkra aðgerða ef svo hefði verið. Þetta kemur skýrt fram í bréfi sýslumanns sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til hér áðan. Jafnframt hefur sýslumaður upplýst ráðuneytið um að engar kvartanir hafi komið frá íbúum umdæmisins í þá veru.

Sýslumaður getur þess einnig að mjög gott samstarf hafi verið við umdæmi sýslumannsins á Selfossi og hefur honum borist þaðan aðstoð þegar þurft hefur. Í bréfi til ráðuneytisins fyrr í þessum mánuði upplýsir sýslumaður að lögreglan hafi sinnt umferðareftirliti og öðrum löggæsluverkefnum með miklum ágætum og afgreiðsla mála sé í góðum farvegi.

Eins og ég hef rakið hér eru aðgerðir sýslumannsins tímabundar en frá og með áramótum fjölgar lögreglumönnum á Hvolsvelli þar sem ríkislögreglustjóri hefur í samráði við dómsmrn. ákveðið að kosta eina stöðu lögreglumanns við lögreglustjóraembættið á Hvolsvelli frá og með næstu áramótum. Með þessu verður unnt að efla enn frekar hið ágæta starf lögreglunnar í Rangárvallasýslu til að mynda umferðareftirlit.

Ég held að það sé rétt að hafa í huga að Kjartan Þorkelsson, sem fyrr á þessu ári tók við embætti sýslumanns á Hvolsvelli, var áður sýslumaður á Blönduósi. Það þarf án efa ekki að rifja upp fyrir þingmönnum hversu vel umferðareftirliti er sinnt í því umdæmi. Með fjölgun lögreglumanna á Hvolsvelli, sem verður staðreynd um næstu áramót, og eflingu lögreglunnar almennt á Suðurlandi, má búast við mun öflugra lögreglueftirliti, þar með töldu umferðareftirliti sem Sunnlendingar og án efa hv. þm. munu fagna sérstaklega.

Ég vil að lokum undirstrika að unnið hefur verið að því í dómsmrn. að styrkja löggæsluna á Hvolsvelli eins og ég hef rakið. Áfram verður hugað að því að styrkja hana frekar á næstu árum.