Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 10:44:12 (806)

2002-10-31 10:44:12# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[10:44]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Enn á ný kemur hæstv. sjútvrh. með frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Lögin um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, eru í 28 greinum. Frá því að þau voru samþykkt hafa komið fram 18 breytingar á þeim. Hver einasta grein laganna hefur fengið einhverja breytingu. Það hefur þurft að breyta hverri einustu grein fiskveiðistjórnarlaganna nema einni, 1. gr. Það er greinin sem fjallar um það að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Þannig er inngangurinn og upphaf laganna um stjórn fiskveiða.

[10:45]

Það eru mjög göfug og góð markmið sem fram koma í 1. gr. enda hafa stjórnarherrarnir ekki þorað að gera breytingu á henni þó að margar greinar laganna séu beinlínis andsnúnar markmiði hennar. Það er mótsögnin mikla. Nú staðfestist það sem ég er að segja enn einu sinni. Ég og margir aðrir þingmenn og margir þegnar íslenska samfélagsins hafa bent á að enn þurfi að bæta og enn að laga. Það tókst ekki að úthluta 500 tonnum af fiski frá því í maí fram til dagsins í dag. Reglugerðin var ekki klár og nú bíða menn eftir þessum uppbótarkvóta. Þá vakna náttúrlega spurningarnar um hver eigi að fá þennan kvóta. Hverjir bíða eftir kvóta? Það væri fróðlegt að vita hversu margar símhringingar hæstv. sjútvrh. hefur fengið frá fólki víða að af landinu sem beðið hefur um kvóta, beðið hann að skilja þetta og hitt vegna þess að allt sé í volli.

Hver er grundvallarástæða þessa ástands? Jú, þessi kvóti verður til vegna þess að mönnum kemur saman um að byggðarlög hafi orðið fyrir samdrætti í sjávarútvegi. Hvernig stendur á því að byggðarlög verða fyrir samdrætti í sjávarútvegi? Er það vegna náttúruhamfara, eldgosa í hafinu eða eitthvers svoleiðis? Nei, það eru einfaldlega lögin um stjórn fiskveiða sem hafa valdið þessu. Við sjáum að enn eru til samfélög sem titra eilítið vegna þess að töluverðar breytingar hafa orðið í eignarhaldi á myndarlegum og góðum útgerðum þeirra. Menn spyrja sig: Munu aflaheimildirnar sem byggðin mín hefur hverfa á braut allt annað til að þjóna hagsmunum þeirra sem eiga meiri hlutann í útgerðunum? Þetta blasir við. Þetta ástand er m.a. vegna þeirra ákvæða að í lagi sé að framselja kvótann, leigja, selja og guð má vita hvað.

Hv. Alþingi samþykkti lög 15. maí 1990. Nú stendur til að gera breytingu á lögum sem við samþykktum fyrir örfáum mánuðum vegna þess að reglugerðin var ekki til, a.m.k. tókst ekki að úthluta þessum fiski. Það vona margir á þennan fisk. Þeir hugsa um kosningarnar eins og börnin hugsa fyrir jólin. Þau syngja: Bráðum koma blessuð jólin. En margir hugsa með sér: Bráðum koma blessaðar kosningarnar. Þá geta menn komið með útrétta lófa, fengið fisk í lófa, fengið í hendur vonarpening. Kerfið býður upp á þetta, hæstv. forseti, þegar þessar eilífu úthlutanir fara sífellt vaxandi.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi það réttilega áðan að byggðakvóti og úthlutunarkvótar færu sífellt stækkandi vegna þess að vandamálið sem fiskveiðistjórnin í þessu landi veldur verður alltaf meira og meira og kallar á að það þurfi stöðugt að auka þessa úthlutunarkvóta. Við sáum það í vor, herra forseti, þegar verið var að úthluta ýsunni og steinbítnum. Ráðherra fékk ýsukvóta og steinbítskvóta til að úthluta vegna þess að frelsi smábátamanna til að veiða ýsu og steinbít var afnumið. Það var hið mesta óráð. En þá var gripið til þess ráðs, svona til að bjarga einhverju, að veita úthlutanir. Hvaða afleiðingar hafði það? Hverjir fengu ýsu- og steinbítskvótann? Margir smábátamenn áttu von á að fá úthlutað úr mildri hendinni en þeir urðu margir fyrir vonbrigðum vegna þess að reglurnar sem settar voru hentuðu sumum en öðrum ekki.

Smábátamenn t.d. á Þingeyri sem voru í nákvæmlega sömu stöðu og smábátamenn á Flateyri, sem róa á nákvæmlega sömu mið og glíma við sömu hluti, okurvexti og margt annað sem viðgengst í samfélaginu, verðbætur og ég veit ekki hvað þetta heitir allt í bankakerfinu, verða að horfa upp á að nágrannarnir fá úthlutað fyrir milljónir en fá ekki neitt sjálfir og eru í basli og vonbrigðum. Þetta ýtir undir þá tilhneigingu, herra forseti, að menn geri það sem þeir mögulega geta í að landa fram hjá og svindla til þess eins að útgerðir þeirra fari ekki á hausinn. Þetta gæti leitt til þess. Ég hef reyndar því miður heyrt af því þó að ég hafi engar sannanir um það.

Já, það er alvarlegt íhugunarefni hvernig komið er með stjórn fiskveiða á Íslandi. Ég legg til að hæstv. sjútvrh. fari að hlusta á þær raddir í hans eigin flokki og öllum öðrum flokkum sem eru víða í samfélaginu að lögin verði hreinlega tekin til almennilegrar endurskoðunar, með 1. gr. gildandi laga að leiðarljósi, þar sem talað er um að íslenska þjóðin eigi nytjastofnana og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu miðanna. Við verðum að huga betur að þessu svo að við þurfum ekki á hverju einasta ári, tvisvar eða þrisvar á ári, að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þarna brast. Þá þarf að fara að laga það. Þarna kom gat og þá þarf að bæta það. Svo þegar búið er að bæta það kemur annað gat og þá þarf að bæta það. Svona hefur þetta verið enda er búið að breyta hverri einustu grein í þessum lögum fram og aftur. Allar hafa þessar breytingar orðið vegna þess að markmið laganna hefur ekki náðst.

Herra forseti. Það er skiljanlegt að málum skuli svona háttað. Ég vona að hjá smábátum, byggðum og útgerðum sem standa höllum fæti og geta sig hvergi hreyft, muni þetta lagast og koma betri tímar. Það er skiljanlegt að ráðherrann skuli leggja þetta fram en engu að síður blasir þetta fiskveiðistjórnarkerfi svona við fjöldanum. Á síðustu árum, frá því að þessi lög tóku gildi, hefur fólki fækkað mjög mikið á þeim stöðum sem byggja afkomu sína á fiskveiðum. Aflaheimildirnar hafa verið fluttar burt. Einn góðan veðurdag gætu þær þó komið aftur. En hvaða öryggi er þetta? Við hvaða öryggi býr fólk sem á heima í byggð sem á allt sitt undir sjávarútvegi? Einn daginn eru aflaheimildirnar seldar eða teknar af einhverjum ástæðum þó að þeir sem eiga aflaheimildirnar reyni að sporna við því. Þeir ráða ekki við kraftinn. Þannig er farið með aflaheimildirnar. Það er mikið óöryggi samfara því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við.

Ég legg til að hæstv. sjútvrh. lesi mjög vandlega það frv. sem Samfylkingin hefur lagt fram á þinginu um stjórn fiskveiða og tileinki sér anda þess. Sú stefna, þau sjónarmið og viðhorf sem þar koma fram eru í fullu samræmi við 1. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða.

Hins vegar vilja margir breyta þeirri grein. Mér er kunnugt um að þeim finnst fráleitt að tala um að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Sumir eru á þeirri skoðun sem segja bara: Útgerðirnar eiga kvótann og enginn annar. Þau sjónarmið eru til. Eins eru líka margir sem ekki segja það en hugsa það í hjarta sínu. Það er náttúrlega mjög alvarlegt ef þeim fer fjölgandi sem hugsa þannig.

Á síðasta vori, herra forseti, þegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða voru samþykktar kom inn regla um hámarksaflahlutdeild, um hve mikið útgerðir mættu eiga í fiskstofnunum við Ísland. Í tillögunum komu m.a. fram hugmyndir um að ein útgerð gæti átt allt að því 40% af ýsustofninum eða 50%, ég man ekki hvort. Sama gilti um aðrar tegundir. En sem betur fer var þetta lagað. Mig langar að heyra hvort hæstv. ráðherra vildi vera svo vænn að leggja orð inn í umræðuna um það athugunarefni að æ meiri samþjöppun er að verða í sjávarútveginum. Er ekki farið að jaðra við að vissar útgerðir séu komnar með það mikla hlutdeild í ákveðnum fiskstofnum að það sé hreinlega lögbrot? Þarf ekki að fara að vinda ofan af því, nema menn hafi áhuga á og telji hagkvæmast að ein útgerð hafi allan aðganginn að fiskimiðunum út frá hagkvæmni stærðarinnar? En það er ekki víst að það sé hagkvæmni þjóðarinnar, samfélagsins eða byggðanna.

Við sjáum þessa tilhneigingu einnig í fiskeldinu, herra forseti. Þar eru stóru fyrirtækin stöðugt að hasla sér völl. Auðvitað er það skiljanlegt. Menn reyna náttúrlega að berjast fyrir sínu eftir þeim lögum og reglum sem gilda hverju sinni. Það er skiljanlegt að útgerðarmenn og þeir sem standa að útgerð skuli vinna eins og þeir vinna því að lögin bjóða upp á þetta. Sem betur fer er samt dugur og djörfung í útgerðarmönnum. Ég óttast því ekkert að þó að breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu fari allt í pat og vitleysu. Þeir útgerðarmenn sem fengist hafa við sjóinn og glímt við hann geta alveg tekist á við slíkar breytingar.

[11:00]

Herra forseti. Ég hef ásamt öðrum hv. þm. lagt fram þáltill. um að rannsóknir á þorskeldi verði auknar. Ég vona að það verði gert og tekið tillit til þess enda er vaxandi áhugi fyrir því. Mér finnst ágætt að hæstv. ráðherra skuli sýna áframeldi á þorski áhuga. Ég tel reyndar að það ætti að setja meiri peninga í rannsóknir til uppbyggingar greina í sjávarútvegi, eins og teikn eru þó á lofti um þar sem ágæt nefnd hefur skilað áliti um að hægt sé að auka verðmæti sjávarfangs til muna. Það vita náttúrlega flestir sem koma eitthvað að sjávarútvegi.

Að lokum bendi ég á, herra forseti, að það er búið að breyta hverri einustu grein í þessum lögum á einhvern hátt frá því að þau tóku gildi, nema 1. gr. Hún er í raun síðasta vörnin og skjólið. Það vill svo vel til að ég veit að jafnaðarmenn börðust vel fyrir þessu ákvæði, að þetta ákvæði stæði í greininni. Það var mjög gott að það ákvæði fór inn í greinina og skilningurinn á bak við það ákvæði lifir enn í hjörtum manna hér á landi, að miðin og hafið og auðlindir þess séu sameign íslensku þjóðarinnar og nýta eigi þær til farsældar og góðs fyrir byggðirnar. Auðlindin er ekki til þess að menn fari með hana út í brask og peningaleiki með hlutabréf og annað og skynji varla um hvað útgerðin snýst. Frekar skynja þeir peningamarkaðinn og varla þó.