Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:46:01 (811)

2002-10-31 11:46:01# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:46]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Segjum að fram á sviðið á Grenivík komi ungur maður sem vill stunda sjó, getur hann þá samkvæmt þessu haft greiða leið að kvótanum á Grenivík? Gott væri ef kerfið virkaði þannig. En þegar farið er að binda kvótann algerlega niður með handvirkri úthlutun, eins og hlýtur að vera í slíku kerfi, er deginum ljósara að upp koma illindi og deilur í tengslum við slíkar úthlutanir.

Hvað hefur gerst með fiskmarkaðina í landinu? Fyrst var þeim kröftuglega mótmælt og sagt að þeir ríkustu mundu bara ná að kaupa heimildir. Við verðum hins vegar líka að treysta hæfni og færni þeirra sem standa í útgerð. Það eru ekki endilega bara þeir ríkustu sem fá heldur þeir sem eru góðir í útgerð og standa sig vel.