Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:52:40 (815)

2002-10-31 11:52:40# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig ekki hafa hafið þessa umræðu. Hv. þm. sagði einfaldlega í ræðu sinni að hann væri á móti uppboðum, á móti þeirri aðferð til að gefa mönnum jafnræði til að ná til sín veiðiheimildunum. Það er ástæðan fyrir því að ég fór í þetta andsvar við hv. þm.

Hv. þm. sagði líka í ræðu sinni áðan að hann væri ekki á móti markaðnum þar sem það ætti við. Ég spyr: Var ég að misskilja eitthvað þegar hv. þm. sagðist á móti uppboðum eða markaðsleið til þess að koma veiðiheimildunum til skila? Ég veit ósköp vel að að hluta til er í þeirra tillögum gert ráð fyrir markaðsleið. Ég fagnaði því á sínum tíma. En hv. þm. tók svo til orða í umræðunum rétt áðan að hann væri á móti þessari uppboðsleið. Þess vegna taldi ég ástæðu til að óska eftir því að hann útskýrði hvernig ætti að velja úr þá sem ættu að fá veiðiheimildir ef ekki ætti að fara markaðsleið til þess.