Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:57:06 (818)

2002-10-31 11:57:06# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er innilega sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Það er öryggisleysið. Menn fara ekki vegna þess að þeir hafa ekki að neinu að hverfa, þ.e. eignir þeirra eru verðlitlar. Þetta er stóra málið. Ástandið verður náttúrlega ljóst við svona aðstæður, þegar auglýst er eftir eignum og menn geta losað það sem þeir héldu að væri óseljanlegt.

Grunnurinn að þessu öllu er heftur aðgangur byggðarlaganna að auðlind sem byggðarlögin höfðu aðgang að áður. Við gleymum því ekki að skipta þurfi réttlátlega og það á ekki að stjórna með veiðiheimildum úr stofnum o.s.frv. en peningaöflin eru farin að stjórna því algerlega hvernig byggðaþróunin er. Það er vond leið. Við verðum að vinda ofan af þessu og þess vegna leggjum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði tillögur okkar í púkkið. Við teljum að mjög auðvelt sé að vinda ofan af þessu kerfi á 20 árum og byggðatenging sé alger forsenda.

Ég árétta enn og aftur að ef við tölum um heiminn allan þá erum við Íslendingar með landstengingu á veiðiheimildum okkar. Byggðatenging er ekkert annað en smækkuð mynd af landstengingu eins og við höfum. Við veiðum 1,6--2 millj. tonna á ári á okkar forsendum og löndum hér. Við förum í næsta þrep, í sjávarbyggðir landsins, og gefum þeim þann rétt til lífsbjargar sem augljóslega er þeirra.