Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:39:12 (825)

2002-10-31 13:39:12# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Vissulega er það alvarlegt gagnvart sjúklingum þegar hópur lækna í ákveðnu bæjarfélagi tekur sig saman og hættir störfum. En við þurfum að gera okkur grein fyrir út á hvað þetta mál gengur.

Ég tók eftir því að talsmaður þess hóps sem sagt hefur upp í Reykjanesbæ sagðist í spjalli á útvarpsstöð í morgun hafa verið þvingaður út í uppsagnir. Í öðru lagi sagðist talsmaðurinn ætla að knýja stjórnvöld til að breyta um stefnu í málefnum heilsugæslunnar. Það má því segja að hér sé um þvingunaraðgerð að ræða. En því miður verður þriðji aðilinn þolandinn í baráttunni allt eftir því hvernig menn kjósa að túlka þessar aðgerðir.

Ég vil fyrst víkja að því að í heilbrrn. munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja sem minnsta röskun í Reykjanesbæ ef svo fer að uppsagnirnar standi. Það sem við munum beita okkur fyrir er m.a. þetta: Að efla hjúkrunarfræðingavaktir til að þjónusta og leiðbeina fólki sem leitar til heilsugæslunnar. Við munum gera okkar ýtrasta til að reyna að fá lækna til starfa í stað þeirra sem hætta. Við bendum fólki á neyðarvaktir sem eru á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sjálfri. En það er einlæg von mín að þessir læknar ígrundi stöðuna og taki aftur uppsagnir sínar og velti fyrir sér þeim kostum sem við höfum sagst vera tilbúin að skoða.

Heilsugæslulæknar sem sagt hafa upp í Reykjanesbæ hefur verið boðið upp á ýmsa kosti til að reyna að leysa þessa deilu en svar þeirra er jafnan það sama: ,,Við erum hætt ef við fáum ekki leyfi til að geta sent Tryggingastofnun ríkisins reikninga fyrir unnin læknisverk á einkastofum.``

Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykn. spyr um úrræði í bráð og lengd vegna uppsagna heilsugæslulæknanna í Hafnarfirði og Bessastaðahreppi sem eiga að taka gildi 1. desember nk. Ég vonast sömuleiðis til þess að Hafnarfjarðarlæknarnir sjái sig um hönd og fari aftur yfir kjaranefndarúrskurðinn sem þeir voru að fá og færir heilsugæslulæknum í mörgum tilvikum meiri kjarabætur en menn hafa almennt séð í þjóðfélaginu á þessu og síðasta ári.

Það gildir um Hafnarfjarðarlæknana eins og Reyknesingana að ég er tilbúinn að gera við þá eða aðra sem vilja sinna sjúkum á þessum svæðum þjónustusamning um starfsemina. Þeir gætu boðið í þjónustuna undir hatti heilsugæslunnar og samkvæmt lögbundnum kröfum um heilsugæslu í landinu. En ég er ekki tilbúinn til að tvískipta grunnheilbrigðisþjónustunni á Íslandi.

Kjaranefnd var á dögunum að úrskurða heilsugæslulæknum í landinu launabætur sem gilda frá 1. apríl. Lífeyrisréttur þeirra rýmkast umfram það sem aðrir hafa fengið og laun hækka í mörgum tilfellum mjög mikið. Heildarkostnaðurinn vegna þessa úrskurðar samkvæmt útreikningum ráðuneytisins liggur rétt um 400 millj. kr. á ári en heilsugæslulæknar eru innan við 200 alls.

Herra forseti. Ég hafna tvískiptingu grunnþjónustunnar og geri það m.a. vegna harðrar gagnrýni Ríkisendurskoðunar á stjórnun kerfisins. En það er ekki eina ástæðan. Prófessor í heilbrigðisvísindum hefur m.a. dregið upp þá framtíðarmynd sem blasað gæti við ef gengið yrði að kröfum þeirra lækna sem lengst ganga. Hann sér fyrir sér stórhækkun á komugjöldum sjúkra ef þessi leið yrði farin. Hann sér fyrir sér aðgangshindranir vegna kostnaðar og hann sér fyrir sér heilsugæsluhugsunina í upplausn ef grunnþjónustunni verður skipt í tvennt.

Ég held að menn verði að hugleiða, bæði hv. málshefjandi og aðrir þeir sem taka þátt í þessari umræðu, hvort þeim hugnist þetta. Ég er ekki tilbúinn til þess að taka fyrstu pensildrættina í þessa framtíðarmynd.

Ég endurtek að kjör heilsugæslulækna hafa verið bætt mjög mikið þannig að starfið á launanna vegna að vera aðlaðandi og ég verð var við að heilsugæslulæknum líkar þetta starf vel. Samkvæmt þeim kjörum sem þeim hafa nú verið búin ætti heilsugæslan því að vera aðlaðandi fyrr lækna, unga sem gamla. Heilsugæslan ætti að geta eflst þess vegna. Ég vil því skora á þá lækna sem hér eiga hlut að máli og hafa sagt upp störfum að endurskoða þá ákvörðun sína og fara yfir þá möguleika með okkur áfram sem gætu verið í stöðunni.