Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:00:36 (833)

2002-10-31 14:00:36# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst í heild sinni ekki um krónur og aura, heldur er fyrst og fremst um að ræða eðlilega og sjálfsagða réttindabaráttu sérfræðinga í heimilislækningum og það að allir eigi jafnan rétt á heilbrigðisþjónustu, ekki síst á þeirri mikilvægu grunnþjónustu sem veitt er í heilsugæslunni. Málið snýst um það.

Hæstv. ráðherra kemur hér og segir: ,,Ég hafna tvískiptingu grunnþjónustunnar.`` Sú tvískipting er eins og hér hefur komið fram þegar til staðar. Og sú tvískipting sem átti að ríkja samkvæmt lögum sem eru að grunni til síðan 1973 er löngu fyrir bí þegar sérfræðingum á öðrum sviðum en heilsugæslunni var falið eða þeir máttu taka við að sinna slíkri grunnþjónustu. Þar með var tvískiptingin fyrir bí. Og það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við þann veruleika sem við búum við.

Það að tvískiptingunni var hafnað með samningum við sérfræðilækna sem starfa á öðrum sviðum en í heimilislækningum verður til þess að þeir gera að sjálfsögðu kröfu um að fá að gera gjaldskrársamninga eins og aðrir sérfræðingar á sviði lækninga. Þetta er sá veruleiki sem við búum við. Hitt er sýndarveröld að hér sé í gangi tvískipt kerfi. Það er sýndarveröld.

Það er löngu orðið tímabært að menn horfist í augu við það, vegna þess að ef við gerum það ekki, þá verður þessi deila aldrei leyst. Og á hverju bitnar það þá fyrst og fremst? Á sjúklingunum sem eiga rétt á grunnþjónustu. Þeir eiga rétt á öflugri grunnþjónustu og það eiga allir að eiga þann rétt án tillits til efnahags. Við í Samfylkingunni viljum að slík þjónusta sé til staðar og að við finnum það rekstrarform sem tryggi það að einstaklingurinn hafi þann rétt án tillits til efnahags.