Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:46:09 (848)

2002-10-31 14:46:09# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ekki sé mikill ágreiningur á milli mín og hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar enda er hann ávallt afskaplega málefnalegur.

Umræða er að sjálfsögðu alltaf af hinu góða, einnig um sjávarútvegsmál, og í hvert einasta skipti sem lagt er fram frv. til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða verður hér mjög mikil og opin umræða. Það er í sjálfu sér ósköp skiljanlegt. Ég einfaldlega saknaði þess í máli of margra að skauta svona heldur létt fram hjá þeim tækifærum sem menn vonandi sjá í þorskeldinu, alveg óháð því hvað líður óánægju með gildandi fiskveiðistjórnarkerfi og þar fram eftir götunum. Það var það sem ég reyndi að draga fram, og ég ítreka að ég hygg að ekki sé brennandi ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns í þessum efnum.