Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:47:21 (849)

2002-10-31 14:47:21# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki magna neinn ágreining á milli mín og hv. þingmanns en ítreka bara enn og aftur að þau lög sem hér voru til umræðu í morgun benda á að byggðarlög hafi lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Auðvitað er það líka út af því að kvóti hefur flust á milli staða. Ég hef verið að reyna að vekja athygli á því að huga þurfi að eignum fólks á landsbyggðinni, þess vegna kem ég með það inn í þessa umæðu. En ég tek undir með hv. þingmanni --- vissulega er hér verið að ræða um þorskeldi sem er þá ný atvinnugrein. Spurning er hví menn voru ekki löngu byrjaðir að huga að þorskeldi.

Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur benti sjómönnum á að gott væri að kreista svil yfir hrogn þegar þeir væru á hafi. Hann vildi þannig stuðla að því að efla þorskstofninn. Og auðvitað er eðlilegt að þjóð sem byggir alla afkomu sína á fiskveiðum hugi að slíkum málum. Það er furða að ekki sé fyrir löngu farið að ala og styrkja seiði þorskfiska til þess að geta síðan plægt úr akrinum góða uppskeru.