Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:49:46 (851)

2002-10-31 14:49:46# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bað um andsvar vegna þess að mér fundust felast röng skilaboð í ræðu hv. þingmanns. Hann var eiginlega að setja ofan í við okkur sem höfum tekið þátt í umræðunni vegna þess að við höfum talað um annan hluta frv. en hann kaus að tala um. Það eru nefnilega tvisvar sinnum 500 tonn í þessu frv. Í öðru tilfellinu er verið að tala um 500 tonn vegna áframeldis á þorski, og sú umræða fór fram hér sl. vetur. Þá voru bara allir sammála um að setja þessi 500 tonn í áframeldi á þorski. Það var hin besta umræða sem fór hér fram og menn voru sammála um að svona ætti að standa að málinu. Ræða hans var eins og að mæta á aðalfund hjá KR til þess að hvetja menn til að vera í félaginu. Og ég er svo sannarlega í þessu félagi, ég get bara sagt það hér.

En umræðan snerist fyrst og fremst um hin 500 tonnin. Þessi 500 tonn sem ég nefndi áðan snerust um að þeir sem hefðu fengið úthlutað gætu nýtt sér það á þessu ári þótt þeim hefði ekki tekist það á síðasta ári.

Hin umræðan snýst auðvitað um þetta kukl sem hv. þm. hefur tekið þátt í í stjórnarsamstarfinu sem felst í því að fara með fangið fullt af fiskum út á land og gefa þeim sem búið er að taka af réttinn til þess að stunda sjóinn og reyna að lengja lífdaga þeirra sem eru í vandræðum úti um allt að reka útgerð. Það er auðvitað umræða sem á alltaf heima hérna. Kannski eyða þingmenn þess vegna ekkert endilega löngum tíma í að tala um það sem þeir eru sammála um, eins og þetta þorskeldi.