Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:54:58 (855)

2002-10-31 14:54:58# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lauk máli sínu á því að tala um að patentlausnirnar hefðu ekki verið kynntar. Það vill svo til að þessi lög sem við erum að fjalla um, um stjórn fiskveiða, hafa að meginstofni til verið í gildi síðan 1984 og þeim hefur endalaust verið breytt. Við höfum staðið í því hér upp undir hendur að breyta þeim aftur á bak og áfram þannig að ef skilja á orð hv. þingmanns svo að einhver patentlausn hafi fundist í þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við held ég að það sé mikill misskilningur.

Mér fannst ég skilja það á máli hv. þingmanns að í þessu frv. væri verið að tala um 500 tonn af þorski sem ætti að nota í þorskeldi. Ég held að við, allir þingmenn hér, höfum verið sammála um að áframeldi á þorski væri hið besta mál. Það mál var rætt á síðasta vetri og ákveðið að í 5 ár í röð, eins og kemur hér fram í greinargerðinni, skyldi úthlutað 500 lestum af þorski. Það samþykktum við á síðasta vori. Og við erum ekki að ræða um að 500 tonn verði færð yfir á næsta ár.

Fyrri grein þessa frv. kveður á um að færa þær ónýttu heimildir sem þeir sem fengu úthlutað til eldis á síðasta fiskveiðiári og náðu ekki að nýta til næsta árs, að þær verði nýttar á næsta ári og ráðherra hafi lagaheimild til að veita það. Það er sem sagt verið að tryggja að sennilega 150 tonn, sem ekki náðist að nýta á síðasta fiskveiðiári, fái að færast yfir á næsta fiskveiðiár. Það er fyrri liður þessa frv. Seinni liðurinn er hins vegar um 500 tonn í svokallaðan byggðapott. Þessi tvö mál eru alveg aðskilin.

Ég hélt satt að segja að enginn ágreiningur væri um þorskeldið, að allir væru sammála um það og hefðu afgreitt samhljóða á síðasta vori að það fyrirkomulag að úthluta 500 tonnum á ári í það skyldi gilda í 5 ár. En hér er eingöngu verið að tryggja að færa það sem ónotað var yfir á næsta ár þannig að mér finnst gæta svolítils misskilnings í ræðu hv. þingmanns.