Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:57:09 (856)

2002-10-31 14:57:09# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Nei, nei, hér er enginn misskilningur nema e.t.v. um það að ég tel að þó að þingmenn séu sammála um mál eigi þeir líka að ræða um þau. Ef þingmenn almennt eru sammála bendir ýmislegt til þess að um sé að ræða afskaplega jákvætt mál. Og við eigum líka að ræða um jákvæð mál. Alveg eins og við ræðum um galla á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, stöðu í sjávarbyggðum o.s.frv. hljótum við líka að vilja ræða um þá jákvæðu möguleika sem þorskeldið felur í sér fyrir sjávarbyggðir og fyrir það fólk sem menn eru alltaf að velta upp í umræðunni um stefnuna í sjávarútvegsmálum, fólkið í sjávarbyggðunum, sjómenn, fiskvinnslufólk og þar fram eftir götunum. Það eigum við að sjálfsögðu að ræða eins og við ræðum það sem miður fer.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum líklega á síðustu sjö, átta árum breytt lögum um stjórn fiskveiða 20--30 sinnum. Það segir okkur að við höfum auðvitað ekki fundið upp neina patentlausn en menn eru þó alltaf að reyna að lappa upp á kerfið. Ég ítreka að enn hefur enginn komið hér með einhverja heildstæða stefnu sem má kalla patentlausn að því leytinu til að sátt ríki um hana. Það sem Norðlendingar halda fram stangast mjög á við það sem Sunnlendingar og Vestlendingar segja. Afstaðan ræður, máli skiptir hvort menn horfa út frá togaraflota, smábátum, vinnsluhúsum eða öðru. Við þekkjum þessa umræðu en í rauninni hefur ekkert nýtt komið fram í umræðunni um stjórn fiskveiða í morgun. Allar þessar ræður hafa verið fluttar mörgum sinnum á hv. Alþingi. En við hljótum líka að gera þá kröfu til okkar að skoða hið jákvæða, t.d. sóknarfæri sjávarbyggðanna, og þorskeldið felur sannarlega slíkt tækifæri í sér eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson veit manna best.