Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:00:24 (858)

2002-10-31 15:00:24# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu á alltaf að fara fram fagleg umræða og ég get tekið undir sjónarmiðin um strandflota versus þá sem veiða utar, öflugri veiðiskip, frystitogara og þar fram eftir götunum. Meðal annars þess vegna hef ég lagt fram þáltill. til að fara í faglega umræðu, þ.e. að óháðir aðilar skoði færeyska fiskveiðistjórnarkerfið. (Gripið fram í: Akkúrat.) Menn lofa það og prísa en ég er ekkert viss um að menn geri sér grein fyrir hvaða kostir eða gallar eru við það. Þess vegna eiga óháðir aðilar að skoða það kerfi þannig að við getum tekið upp faglega umræðu um það en ekki bara segja ,,tökum upp færeyska kerfið`` án þess að hafa skoðað það í þaula.

Eins og hv. þm. nefndi hefur hv. þm. Karl V. Matthíasson, sem er mjög ötull um að beita sér fyrir þorskeldi, í tvígang flutt þáltill. og ég hef lýst stuðningi við hana. Sjálfur flutti ég þáltill. um kvóta til áframeldis á þorski og sú tillaga er komin í gegn og ég vonast til þess að efni þorskeldisumræðu hv. þm. Karls V. Matthíassonar fái svipaða meðferð.