Rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:37:04 (863)

2002-10-31 15:37:04# 128. lþ. 19.11 fundur 254. mál: #A rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég tek til máls til að taka undir með flm. þessarar tillögu, hv. þm. Örlygi Hnefli Jónssyni, um að skipuð verði nefnd til að kanna verðrýrnun eigna íbúa á landsbyggðinni.

Við höfum rætt hér í dag um sjávarútvegsmál sem tengjast beint þessum málum. Vegna þess tilflutnings sem hefur orðið á aflaheimildum frá hinum dreifðari byggðum til suðvestursvæðisins liggur í rauninni fyrir að verðgildi eigna á landsbyggðinni hefur rýrnað alveg gífurlega og á mörgum stöðum er verðgildi eigna aðeins tíundi partur af því sem verðið væri ef þessar sömu eignir væru í Reykjavík.

Hér liggur reyndar, virðulegur forseti, svar við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers um íbúafjölda á landinu. Það er mjög athyglivert að skoða það plagg. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í nokkur dæmi af því hvernig þróunin hefur verið og tengja það nákvæmlega því sem ég var að nefna hér. Það tengist reyndar líka þeim breytingum sem hafa orðið í landbúnaði á Íslandi.

Gleggsta dæmið um það sem hér hefur verið nefnt er svæði eins og Vesturbyggð þar sem hefur fækkað um 371 íbúa, þ.e. 24,7%, á tíu ára tímabili, frá 1991--2001, í Árneshreppi um 47,8%, í Broddaneshreppi um 32%. Í báðum þessum tilvikum stafar fækkunin af sjávarútvegsstefnunni og síðan því sem er að gerast í landbúnaði. Það er samdráttur í sauðfjárrækt.

Í Norðausturkjördæminu eru athygliverð dæmi --- af því að vitnað var beint til þess --- t.d. í Hrísey þar sem kvótinn var fluttur, bókstaflega á einni nóttu, burtu úr byggðinni. Þar hefur fækkunin orðið um 28%. Þetta er bein afleiðing og þetta þýðir verðrýrnun eigna fólksins sem býr á þessum stöðum.

Þetta er gjörsamlega óviðunandi og þess vegna fagna ég mjög þeirri tillögu sem hér er á ferðinni. Mig langar til, með leyfi forseta, að vitna til ábendinga í greinargerð:

,,Við skoðun til jöfnunar og leiðréttingar þessa misvægis`` --- sem er þá á milli höfuðborgarsvæðisins eða suðvesturhornsins og annarra staða má heita á landinu --- ,,hljóta öll ráð að koma til greina og má varpa því fram hvort tengja megi verðtryggingu lána opinberra byggingarsjóða við þann raunveruleika sem landsbyggðarfólk býr við.``

Þetta tel ég vera eina af þeim leiðum sem koma til greina. Það má bera það saman að í byggðum eins og Suðureyri, Bolungarvík og víðar kostar góð tveggja herbergja íbúð 1.300--1.400 þús. en sams konar íbúð mundi kosta 7,5--8,5 millj. á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er einnig glöggt dæmi. Og ég tel ástæðu til að nefna að það er ekkert ódýrara að byggja á þessum svæðum en í Reykjavík. Það er dýrara ef eitthvað er en verðgildi eignanna rýrnar verulega.

Ég held, virðulegur forseti, að kannski sé ekki ástæða til að halda langa ræðu um það sem hér er á ferðinni en það er beint samhengi á milli tilflutnings aflaheimilda frá landsbyggð og til höfuðborgarsvæðisins eða öflugra útgerðarstaða og verðrýrnunar á stöðunum sem aflaheimildirnar eru teknar frá. Íbúðaverð hefur hækkað á höfuðborgarsvæðinu í eðlilegum takti við byggingarvísitölu og kannski ívið meira vegna eftirspurnarinnar frá landsbyggðinni en eignir fólks hafa rýrnað margfalt á við flutninginn sem þó hefur verið frá stöðunum. Þetta er athyglivert og þess vegna tek ég einlæglega undir efni þessarar tillögu og raunar óska flm. til hamingju með að hafa komið með þetta hér inn á þing.