Rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:59:50 (866)

2002-10-31 15:59:50# 128. lþ. 19.11 fundur 254. mál: #A rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða till. til þál. um nefnd til að kanna rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar. Flutningsmaður tillögunnar er hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, þingmaður Norðurl. e. eða Austurkjördæmisins nýja.

Það er mjög gott að þessi tillaga skuli koma fram. Það er ekki vanþörf á að menn taki saman höndum um að reyna að bæta það sem miður hefur farið varðandi eignir og eignastöðu úti á landi.

[16:00]

Nefndinni sem hv. þm. leggur til að komið verði á fót er ætlað að kanna þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Einnig á nefndin að skoða ítarlega hvernig eignir fólks á landsbyggðinni hafa rýrnað í verði og um hvaða fjármuni er að ræða. Síðast en ekki síst á nefndin að leita úrræða og koma með tillögur til úrbóta og það skiptir náttúrlega mestu máli. Einnig eru nefndinni ætluð ákveðin starfslok, þ.e. í lok október 2003.

Það er alveg ljóst að verð fasteigna á landsbyggðinni hefur lækkað. Og hverjar eru ástæðurnar fyrir því? Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni um það. Það er náttúrlega staða byggðanna í sambandi við atvinnutækifærin. Við höfum séð hvernig byggðarlög hafa koðnað niður við það að missa aflaheimildir og rétt til að veiða fisk sem er nánast í fjöruborðinu hjá þeim. Og þegar svo er, þegar búið er að taka möguleika fólks til að afla sér tekna á ákveðnum svæðum þá liggur náttúrlega í augum uppi að verðmæti eignanna sem þar eru rýrna.

Annað í þessu máli er að ný tækifæri hafa ekki skapast í atvinnulífi eins og hefði þurft að vera. Við höfum reyndar á síðustu árum séð tilraunir sem voru gerðar til nýsköpunar í atvinnulífi sums staðar um land, t.d. með fjarvinnsluverkefni. En ástæðan fyrir því að þau fóru nú flest yfir um á einhvern hátt var m.a. sú að verkefni vantaði. Að minni hyggju hefði ríkisvaldið getað gert töluvert meira en gert var, þ.e. komið með ýmis störf, ný störf og ákveðin verkefni, þjónustuverkefni, sem þessar fjarvinnslustöðvar hefðu getað tekið að sér. Þó ekki hefðu verið nema þrjú, fjögur störf á hverjum stað þá skiptir það gífurlega miklu máli. Alveg eins og kom fram hér í umræðunni í dag að á bak við eitt sjómannsstarf koma fjögur til fimm störf á bak við það. Og þetta er eins, að í kringum hvern mann eða konu hvar sem þau búa, hvar sem fólk býr er náttúrlega ákveðin starfsemi, þjónusta, skóli, verslun og margt annað. Þetta er það sem ég held að nefndin hljóti m.a. að horfa til, þ.e. atvinnuþáttanna.

Og síðan auðvitað það sem hv. 4. þm. Vestf. talaði um, þ.e. samgöngurnar. Grundvallarskilyrði er að góðar samgöngur séu um landið til að fólk sé ánægt á þeim stöðum sem það býr, að það komist frá stöðunum og til þeirra með góðu móti. Til að það sé hægt þurfa samgöngur að vera góðar. Því miður er það svo, herra forseti, að samgöngur á sumum stöðum eru enn þá mjög slæmar og þess vegna næstum því ófært til sumra landshluta, marga mánuði á ári eins og t.d. Vesturbyggð á Vestfjörðum. Þar hafa menn verið að leggja mikla áherslu á hina síðustu mánuði að koma þurfi þeirri byggð í árs vegasamband við hringveginn og er ég innilega sammála því og vona að eftir kosningar verði jafnmikill áhugi og atgangur í þeim málum og er núna. Ekki skal standa á mér að styðja við þá viðleitni hvar og hvenær sem er.

Hv. þm. víkur að því í greinargerð með þáltill. að flestar fjölskyldur í landinu myndi megineign sína með því að byggja yfir sig. Húsið er ekki einungis íverubústaður fólksins heldur líka það sem það leggur til í sparnaði og öðru til að mynda eignir. Og það er náttúrlega afar slæmt þegar svo háttar að verðlagið á eigninni hrynur m.a. vegna þess að fiskveiðistjórnarkerfið hefur haft þær afleiðingar að allt hefur hrunið í byggðinni og þá falla húsin náttúrlega í verði. Við getum hugsað okkur stað, t.d. á Suðurnesjum, þar sem menn hafa getað fengið að veiða keilu og löngu frjálst og svo allt í einu er það ekki hægt og þá þurfa menn að hætta að vera við útgerðina sína. Við það verður atvinnustigið miklu verra og þá lækka fasteignirnar í verði. Ég ítreka það aftur, herra forseti, að í starfi væntanlegrar nefndar, sem ég vona að sett verði á laggirnar, hljóti menn að horfa til atvinnutækifæranna, samgangna og heilsugæslu reyndar líka. En þetta skiptir allt miklu máli í sambandi við aðstöðuna úti á landi og í byggðunum. Það sem er einnig í þessu er að stjórnvöld geta með lagasetningu haft mikil áhrif á hvernig það er gert.