Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:03:32 (930)

2002-11-01 14:03:32# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það að ég hef viljað standa vörð um hag stofnfjáreigenda samkvæmt því sem ég tel vera eðlilegar sanngirniskröfur. Svo greinir okkur á um hvað sé eðlilegt og hvað sé sanngjarnt í þessum efnum.

Oft hef ég furðað mig á því í tengslum við þetta tal hv. þm. Péturs H. Blöndal um fé án hirðis --- og ég tek undir þau sjónarmið sem komu hér fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni --- hvernig hann lítur á hlutvert sitt á Alþingi þar sem hann er hirðir fjármuna almennings. Við ræddum hér fyrr í dag um einhverjar umsvifamestu framkvæmdir í Íslandssögunni í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og fyrirhugað álver. Hv. þm. greiddi því atkvæði hér í vor að heimila ríkisstjórninni (Gripið fram í.) að ráðast í virkjunarframkvæmdir án þess að hann hefði séð nokkra samninga sem lægju til grundvallar. Þarna finnst mér hv. þm. ekki rækja hlutverk sitt sem hinn góði hirðir almennings.