Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:04:27 (955)

2002-11-01 15:04:27# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða var búin að standa yfir nokkurn tíma og hafði tekið á sig ýmsar myndir. Menn ræddu um stjórn fiskveiða og einnig um dagskrármálið sem var þá, og er núna. Menn fengu ádrepu frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að tala ekki nógu mikið um áframeldi á þorski. Ég vil bæta úr því hér með örfáum orðum.

Ég taldi ekki ástæðu til að ræða það mál sérstaklega mikið vegna þess að þetta frv. snýr eingöngu að því að menn geti nýtt sér þær heimildir sem búið var að úthluta samkvæmt lögunum eins og þau lágu fyrir. Umræðan um áframeldi á þorski fór fram á liðnum vetri og þá voru menn ákaflega sammála um að vilja styðja við það. Það er hins vegar ekkert óeðlilegt að á fyrsta árinu sem menn áttu kost á því að nýta veiðiheimildir í þessu skyni hafi þeir ekki verið algjörlega undir það búnir og ekki getað nýtt þær að fullu. Þess vegna er út af fyrir sig ekki nokkurn skapaðan hlut við það að athuga þó að hæstv. ráðherra leggi til að hægt verði að nýta þessar heimildir á næsta ári.

Það voru hins vegar fyrst og fremst umræður um reglur um úthlutanir á veiðiheimildum og síðan stjórnkerfi fiskveiða almennt sem menn ræddu í hinum fyrri ræðum sínum. Ég bað um orðið aftur, ekki vegna þess að ég ætlaði að fara að endurtaka ræðu mína sem ég flutti við þetta tækifæri heldur vegna þess að það stóð þannig af sér að hæstv. ráðherra var ekki á staðnum. Ég kunni ekki við að hann fengi ekki tækifæri til að svara þeim spurningum sem hv. þm. höfðu lagt fyrir hann og vildi þess vegna, af greiðasemi við hæstv. ráðherra, sjá til þess að málið kæmist á dagskrá þegar hann gæti (Gripið fram í.) verið við. Ég skal þess vegna ekki hafa ræðu mína lengri heldur hleypa hæstv. ráðherra að.