Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:30:47 (1018)

2002-11-04 16:30:47# 128. lþ. 21.10 fundur 247. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (gjald á aflaheimildir) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:30]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Með lögum nr. 34/2000, um breytingu á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs, voru m.a. lögfestar fjárhæðir sem renna til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Gjöldin eru tvenns konar og eru lögð á eigendur fiskiskipa. Annars vegar er um að ræða gjald sem lagt er á um hver áramót og miðast við stærð skips í brúttótonnum. Hins vegar er um að ræða gjald sem lagt er á við úthlutun aflaheimilda. Fram að framangreindri lagabreytingu hafði fjárhæðum verið breytt árlega með reglugerð og var miðað við breytingar sem orðið höfðu á vísitölu byggingarkostnaðar á sama tíma enda voru ákvæði þar að lútandi í þágildandi lögum. Til að halda sömu reglu er hér lagt til:

1. Að gjald á hvert brúttótonn fiskiskips verði hækkað úr 1.018 kr. í 1.081 kr. og að hámarksgjald sem lagt er á brúttótonn hvers skips hækki úr 387 þús. kr. í 410 þús. kr. Árið 2002 námu tekjur Þróunarsjóðs af þessu gjaldi um 87 millj. kr. og var það lækkun um 5 millj. kr. frá árinu áður. Lækkunin stafaði af fækkun skipa með veiðileyfi. Verði frv. þetta að lögum má gera ráð fyrir að tekjur Þróunarsjóðs af gjaldinu hækki um 5 millj. kr. og verði um 92 millj. kr. árið 2003.

2. Að gjald á hvert úthlutað þorskígildistonn hækki úr 1.358 kr. í 1.441 kr. Árið 2002 má gera ráð fyrir að tekjur Þróunarsjóðs af gjaldi á aflaheimildir verði um 615 millj. kr. Verði frv. þetta að lögum ásamt því að úthlutun þorskígilda verði söm og á yfirstandandi fiskveiðiári má gera ráð fyrir að tekjurnar hækki um 35 millj. kr. frá árinu 2002 og verði um 650 millj. kr. árið 2003.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.