Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:45:50 (1043)

2002-11-05 14:45:50# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur jákvætt undir þetta. Það kann vel að vera að ég hafi talað þannig að tónninn hafi ekki verið réttur. Ég vil hins vegar taka það fram í þriðja sinn að ég er síður en svo að tala í þeim tóni að ég sé á móti framvæmdunum sem um er að ræða. Ég hef reyndar stutt þær hér á hv. Alþingi og hef ekki talað gegn tillögum um þessar framkvæmdir. Ég held hins vegar að það sé mjög mikil nauðsyn á því að menn bregðist núna hratt við til þess að koma í veg fyrir þau vandamál sem ég lýsti áðan. Ég er sannarlega spenntur að sjá hvað hæstv. ráðherra vill gera fyrir Vestfirðinga. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað þurfa menn að skoða tillögur Vestfirðinga, alveg sérstaklega núna í þessu ljósi, en það er meira en það, ég held að menn verði að horfa á svæðið í heild.

Af því að hæstv. ráðherra nefndi hér þrönga sérhagsmuni verð ég að segja það alveg eins og er að þeir þingmenn þessara nýju stóru kjördæma fram undan sem hafa hugsað sér að bjóða sig fram eiga nú engra annarra kosta völ en fara eftir leiðsögn Alþingis sem felst í því að búa til þessi kjördæmi og ætla þeim sem verða kosnir þingmenn þeirra að hugsa um og berjast fyrir framgangi atvinnulífsins og búsetu fólksins í þeim. Þannig er nú bara dagurinn í dag.