Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:47:51 (1044)

2002-11-05 14:47:51# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það fram að það voru ekki mín orð að þröngir sérhagsmunir ættu ekki rétt á sér og það sem stundum hefur verið kallað hagsmunir einstakra kjördæma, jafnvel kjördæmapot. Ég tel mikilvægt að landsbyggðin skiptist upp í kjördæmi þannig að ekki verði allir þingmenn búsettir í Reykjavík. Mér sýnist nokkuð ljóst að þannig mundi það þróast ef landið væri eitt kjördæmi eins og hann vill, sá hv. þm. sem hér talaði.

Í greinargerðinni segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórnvöld þurfa því að hafa heildaráhrif aðgerða í huga þegar þær eru ákveðnar. Það hefur augljóslega ekki verið gert nú.``

Þarna finnst mér hv. þm. gagnrýna í sambandi við stórframkvæmdir á Austurlandi. Ég skal alveg viðurkenna að ekki gerist allt í einu. Það er bara ekki þannig, því miður. Og þegar svona kostur kemur upp eins og þar gerist er að sjálfsögðu mikilvægt að stjórnvöld leggi sig fram um að láta áformin verða að veruleika. Þegar kosturinn kom upp í sambandi við Norðurál í Hvalfirði var það sama uppi, stjórnvöld lögðu sig fram um að sá kostur gæti orðið að veruleika. Í mörgum tilfellum fá stjórnvöld ákveðin tækifæri upp í hendurnar og standa svo frammi fyrir ákvörðun um hvort þau ætla að beita sér fyrir þeim eða ekki.

Engu að síður erum við með gilda byggðaáætlun sem var samþykkt hér í vor. Samkvæmt þeirri byggðaáætlun er lögð áhersla á ákveðið svæði, Eyjafjarðarsvæðið, ekki bara vegna þess sjálfs, heldur vegna þess að það er sannfæring mín og þeirra sem að þessu stóðu --- hv. þm. samþykkti ekki þá tillögu ef ég man rétt --- að Eyjafjarðarsvæðið skipti miklu máli fyrir stórt svæði. Þá er ég að tala um alveg til Skagafjarðar, austur um Þingeyjarsýslur og jafnvel austur á land, að það takist að byggja þannig upp Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið að það geti orðið mótvægi við höfuðborgarsvæðið.