Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:50:03 (1045)

2002-11-05 14:50:03# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekkert afskaplega hrifinn af byggðaáætluninni sem var samþykkt hér í vor og get alveg meðgengið það. Ég tel að aðrir hlutar landsins en hæstv. ráðherra taldi upp muni eiga í erfiðari samkeppni vegna þeirrar framkvæmdar sem auðsjáanlega þarf að verða ef það á að gera þessa hluti svona. Og ef menn gera ekki eitthvað til þess að styrkja aðra hluta landsins minnkar náttúrlega samkeppnishæfni þeirra gagnvart svæðum sem verið er að styrkja. Þannig eru hlutirnir. Og þegar síðan þessar miklu framkvæmdir bætast ofan á þetta sem við höfum verið að tala hér um, bæði í orku- og iðnaðarmálum og í samgöngumálum, verður það auðvitað til þess að menn þurfa að grípa til aðgerða. Hæstv. ráðherra sagði að menn hefðu auðvitað gripið tækifæri þegar kosturinn kom upp. Gott og vel. Ég er nákvæmlega að segja að af því að menn gripu tækifærið þurfa menn líka að fara í að skoða hvaða áhrif það hefur annars staðar og reyna þá að sjá til þess að aðrir hlutar landsins geti búið við þetta án þess að tapa sinni stöðu niður.

Þetta er nákvæmlega hugsunin á bak við þessa þáltill.

Og ég vil aftur segja að ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur tekið jákvætt undir hugsunina í tillögunni. Ég vona sannarlega að menn grípi til ráðstafana núna vegna þess að tíminn til að gera hlutina er einmitt í vetur. Spennuáhrifin af þessum framkvæmdum geta orðið það mikil að ef menn draga það að grípa til aðgerða fram á næsta ár eða þarnæsta getur spennan orðið of mikil til þess að það verði af nokkrum ákvörðunum.