Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:09:53 (1066)

2002-11-05 16:09:53# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um till. til þál. um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum og ég vil leggja örfá orð inn í þessa umræðu. Mér fannst hæstv. iðn.- og viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir reyndar ekki taka þessari tillögu neitt illa. Hún gerir sér grein fyrir því að tillögugerð af þessu tagi er algjörlega nauðsynleg miðað við áform ráðherrans um stórframkvæmdir í landinu, það gefur augaleið.

Ég vil nota tækifærið í framhaldi af þessu til að undirstrika að auðvitað er nauðsynlegt að gera áætlanir sem byggja þá væntanlega á þeirri byggðaáætlun sem hæstv. ráðherra fékk samþykkta á síðasta þingi. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún láti ráðuneyti sitt vinna að úttekt á því hvernig á að framfylgja byggðaáætlun með hliðsjón af framgangi vinnu við fjárlög næsta árs, fyrir 2003.

Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um byggðaáætlunina og sérstaka áherslu á Eyjafjarðarsvæðið. Ég hef fingrað tillögur til fjárlaga fyrir árið 2003. Það er ekki nógu gott að setja bara hluti á blað og tala um þá. Ég finn ekki neitt sem hægt er að kalla séráherslu nema 20 millj. kr. sem er til áætlunar um að gera áætlanir um hvað á að gera. Það er bráðnauðsynlegt fyrir okkur að fá fram hjá ráðherranum hvort unnið sé að því, þá með hvaða hætti og hvort við megum vænta þess að fá yfirlit yfir það hvernig markmiðum byggðaáætlunar vindur fram við fjárlagagerðina fyrir árið 2003. Þetta er ákaflega mikilvægt mál. Megum við, hv. þingmenn, búast við því að ráðuneytið kortleggi hvernig fjárlagavinnunni vindur fram þannig að við getum séð það svart á hvítu og fylgst með því hvernig þau áform sem búið er að setja á blað í byggðaáætlun fara að stöfnum?

Það er líka mikilvægt í þessu samhengi að hæstv. ráðherra láti ráðuneyti sitt gera athugun og úttekt á því hvernig stofnunum hins opinbera reiðir af sem hafa verið fluttar eða verið er að flytja út á land til uppbyggingar þar, sérstaklega með tilliti til framlaga af hálfu ríkisins til þessara stofnana. Það læðist nefnilega að manni sá grunur að stofnanir sem verið er að flytja út á land séu með hliðarráðstöfunum gerðar atkvæðaminni, og tilsvarandi systurstofnanir á höfuðborgarsvæðinu séu styrktar. Það eru slík atriði sem hið háa Alþingi þarf að hafa yfirlit yfir ef eigi að sannfærast um að menn séu af einlægni að vinna að framförum og styrkingu byggðar í landinu, mjög mikilvægt mál. Ég held að við fögnuðum því öll ef fram kæmi heildstæð stefna um það hvernig menn hyggjast fara í þessi mál.

Hv. þingmönnum, flm. tillögunnar, hefur orðið tíðrætt um þenslu á Austurlandi sem afleiðingu virkjana og stóriðjuframkvæmda. En málið er það að við höfum áður farið inn í svona tímabil, og það ekki alls fyrir löngu, við uppbyggingu í Hvalfirði, jarðgangagerð þar, stækkun í Straumsvík o.s.frv. Þá var staðan sú að þensluáhrifin komu auðvitað að langmestu leyti fram á höfuðborgarsvæðinu og leiddu af sér gríðarlega fólksflutninga til suðvesturhornsins. Að bestu manna yfirsýn vilja menn meina að þensluáhrif af stórframkvæmdum þurfi ekkert endilega að koma mest fram á Austurlandi. Þau verði gríðarlega mikil á höfuðborgarsvæðinu þar sem þjónusta við uppbygginguna færi væntanlega fram, og þarf ekki að tína til hver sú þjónusta væri. Auðvitað eru öll svona mál landsmál og verður að skoða í heildstæðri mynd hvað varðar allt landið og gera áætlanir um það. Hæstv. ríkisstjórn, sem gerði engar áætlanir og kom með lítil viðbrögð gagnvart síðasta þensluskeiði sem varð til ómælds tjóns fyrir landið, áformar núna gríðarlega uppbyggingu, og það er ekki nóg að verið sé að tala bara um Austurland heldur er verið að tala um stækkun hér, bæði í Straumsvík og uppi í Hvalfirði. Helst vilja menn meira, og ég held að í öllum öðrum löndum væri búið að leggja niður fyrir sér hvaða áhrif þetta mundi hafa á landið í heild sinni, ekki bara á einstök kjördæmi, það gefur augaleið. Það er svo margþætt hvað hefur áhrif á stöðu okkar sem búum úti á landi. Það er eiginlega varla hægt að tína út einstakt atriði sem er okkur mikilvægast. Það er okkur mikilvægt hvernig staðið er að framleiðslu og afhendingu orku. Sennilega eru bankamálin eitt stærsta málið núna, aðgengi að peningum og tiltrú bankastofnana á uppbyggingu annars staðar en á suðvesturhorninu. Það eru póst- og símamálin sem eru bara móralskt atriði fyrir fólk sem býr úti í hinum dreifðu byggðum, þegar verið er annaðhvort að minnka eða taka þessa þjónustu frá fólkinu. Þetta eru hræðileg skilaboð opinberra aðila um framtíð viðkomandi byggðar og er sennilega eitthvert stærsta vandamálið sem við eigum við að etja í þessu samhengi.

Við getum tekið líka samgöngumálin almennt. Það er búið að ræða mikið um þau en það eru ekki bara vegirnir, það er flug og siglingar líka. Það hefur markvisst verið unnið að því að draga úr þessari þjónustu, í fyrsta lagi með því að hleypa samkeppni inn í flugið sem eyðilagði rekstrargrundvöll tveggja flugfélaga. Afleiðingin varð mikil minnkun þjónustunnar úti um land og nú er ekki flogið á marga staði, eins og menn vita. Síðan varð grundvallarbreyting þegar Skipaútgerð ríkisins var lögð niður á sínum tíma sem sennilega er grunnur þess að öll aðföng og flutningur á vöru og þjónustu hefur hækkað og allir eru að kveinka sér undan úti um hinar dreifðu byggðir. Það eru bara staðreyndir sem menn verða að horfast í augu við. En ég held að tillagan í heild sinni sé þörf áminning til hæstv. ráðherra um að vinna skipulega að þessum málum og gefa okkur yfirsýn yfir það hvers konar samfélagsstjórnun, hvað varðar opinbera uppbyggingu og opinberan rekstur, verði hér í gangi í kjölfar ákvörðunar um stórar framkvæmdir, hvort sem þær eru fyrir austan eða verða til stækkunar á álbræðslum á suðvesturhorninu.