Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:32:38 (1074)

2002-11-05 16:32:38# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., PBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:32]

Pétur Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra. Hér var nefndur samanburður á íbúðaverði áðan og því vil ég aðeins gera grein fyrir því að þessi samanburður er alveg hárréttur, og víða er hann mun óhagstæðari. Hins vegar dugir svona samanburður oft og tíðum alls ekki. Samanburður á íbúðaverði er ekki til nokkurs nýtur ef hús og eignir seljast ekki. Það er staðreyndin á þessum svæðum sem við erum að tala um. Þar er ævisparnaður fólks farinn fyrir ekki neitt, stundum fyrir lítið en oftar fyrir ekki neitt. Þetta er alvara málsins og maður hlýtur að velta fyrir sér hver beri ábyrgðina á því þegar slíkt misvægi verður til þess að fólk tapar eigum sínum öllum eða svo gott sem, ævisparnaði, og það bótalaust.