Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:28:03 (1086)

2002-11-05 17:28:03# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um þetta mikilvæga mál.

Málefni verksmiðjunnar eru í ákveðnum farvegi, bæði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, og Samkeppnisstofnun fjalla um málið og það eru hinir réttu aðilar. Eins og hv. þm. vita hafa kærumál gengið á víxl en samkvæmt opinberum upplýsingum selur Aalborg Portland á öðru verði til Íslands en til annarra landa. Þessu er a.m.k. haldið fram. Og verð til neytenda í Danmörku er meira en helmingi hærra við verksmiðjudyr en í skip til Íslands. Þetta hefur verið kært til samkeppnisyfirvalda sem brot og Sementsverksmiðjan hefur einnig kært til ESA á sömu forsendum.

Það liggur fyrir úrskurður samkeppnisyfirvalda Sementsverksmiðjunni í hag, þ.e. að Sementsverksmiðjan sé ekki markaðsráðandi fyrirtæki. Hvað varðar framtíðarhlutverk sem hér var einnig til umfjöllunar gegnir verksmiðjan mjög mikilvægu hlutverki við förgun úrgangsefna. Sennilega verður það hlutverk enn mikilvægara til framtíðar. Ráðamenn fyrirtækisins hafa unnið að því máli í samvinnu við Efnamóttökuna hf. og spilliefnanefnd. Sementsverksmiðjan og Efnamóttakan hafa undirritað viljayfirlýsingu og er markmið aðila að auka endurvinnslu, minnka þörf fyrir innflutning á eldsneyti og bæta umhverfisímynd beggja fyrirtækja og landsins út á við. Það er búið að vinna skýrslu af hálfu verksmiðjunnar um það hvaða efnum er hægt að eyða, hver ávinningur samfélagsins er og hver kostnaður yrði vegna fjárfestinga.

[17:30]

Ég held því fram að það sé hagur þjóðfélagsins að Sementsverksmiðjan haldi áfram rekstri og taki aukinn þátt í eyðingu úrgangsefna. Að öðrum kosti þarf að senda úrgangsefni úr landi með ærnum tilkostnaði. Að öðru leyti vil ég segja að ég tek undir það að Sementsverksmiðjan er mikilvægur vinnustaður á Akranesi. Hins vegar þýðir ekki annað en að horfast í augu við að markaðurinn er opinn. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði: Það er ekki pláss fyrir nema einn aðila. En málið er ekki það einfalt að við getum bara sagt að við viljum ekki fá innflutt sement inn í landið. Það væri algjört brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og fleira mætti nefna í því sambandi.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson talaði um að við mættum ekki missa þessa starfsemi úr landi og nefndi skipasmíðaiðnaðinn í því sambandi. Hann sagði að við hefðum misst skipasmíðaiðnaðinn vegna þess að við tókum upp samkeppni. Ég skildi hann þannig. Ég veit ekki hvernig þetta er hugsað en það er einnig hægt að nefna Evrópska efnahagssvæðið í tengslum við skipasmíðaiðnaðinn. Við gátum ekki, vegna samningsins, komið í veg fyrir að einkaaðilar færu annað með verk sín. Auðvitað er alvarlegt hve illa sá iðnaður fór á tiltölulega fáum árum. En það er þó jákvætt að miðað við skýrslu sem unnin var sameiginlega af Samtökum iðnaðarins og iðnrn. og hefur verið kynnt opinberlega eru samkeppnismöguleikar íslensks skipasmíðaiðnaðar meiri nú en þeir hafa verið. Á vissum sviðum eru þeir verulegir. Meðal annars er verið að smíða skip á Íslandi, m.a. fyrir útlendinga og nefni ég Færeyinga í því sambandi.

Við verðum og getum ekki annað en viðurkennt ákveðnar aðstæður í samfélaginu og alþjóðasamninga sem við höfum undirgengist en ég vil líka segja að við eigum að ganga eins langt í því og við getum að verja þann iðnað sem við höfum enda skilar hann jafnframt mikilvægu verki fyrir samfélag okkar, eins og ég hef nefnt í sambandi við eyðingu efna. Eins og kom fram í grein formannsins í blaði í dag, sem vitnað var til hér áðan, er þetta mál í athugun og í vinnslu í ráðuneytinu. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það er ekki einfalt en engu að síður tek ég alveg undir það sem hér hefur komið fram. Við höfum ekki mikinn tíma til þess að átta okkur á hvernig við förum í það. Niðurstaða þeirra mála sem eru í vinnslu hjá eftirlitsaðilum skiptir líka mjög miklu máli. Þar á ég bæði við niðurstöður eftirlitsaðila hér heima, samkeppnisyfirvalda, og eins Eftirlitsstofnunar EFTA. Svörin sem berast frá þessum stofnunum skipta mjög miklu máli í sambandi við framhaldið.