Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:43:09 (1092)

2002-11-05 17:43:09# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., Flm. ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:43]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðn.- og viðskrh. á nú fjármagn í ýmsa hluti sem við mundum kannski ekki leggja fjármagn í, t.d. NATO-fundi og því um líkt. Þá er nóg til.

Enn og aftur verð ég að gera athugasemd við hæstv. iðn.- og viðskrh. sem staglast á því að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði séum á móti samkeppni. Það hefur margoft komið fram að við erum á móti samkeppni þegar um grunnþjónustu er að ræða. Ég gat þess margoft í framsögu minni hér í dag að ég teldi að það að koma á samkeppni í fluginu hefði verið mistök í svo stóru og fámennu landi. Ég lagði það til allan tímann, líka sem stjórnarformaður Ferðamálamiðstöðvar Eyjafjarðar, að þar yrði sérleyfi með opinberu eftirliti en ekki samkeppni. Við höfum sérleyfi t.d. í leigubílarekstri. Það samþykkti hæstv. iðnrh. með glöðu geði á síðasta þingi. Þetta fer því bara eftir því hvenær hún talar.

En þetta er alveg skýrt í okkar huga. Við erum ekki á móti eðlilegri samkeppni framleiðslufyrirtækja og í verslunarrekstri o.s.frv. Við höfum talað um grunnþjónustuna í landinu. Það skýrt fyrir og þarf ekki að snúa út úr því.

Vissa hluti er hægt að leysa með sérleyfi og ég er enn þeirrar skoðunar, og hef nú styrkst í því eftir því sem mánuðirnir líða, að sérleyfisfyrirkomulagið hefði á sínum tíma verið miklu heilladrýgra fyrir landsbyggðina fyrir allra hluta sakir.