Starfsemi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:47:54 (1101)

2002-11-06 13:47:54# 128. lþ. 24.1 fundur 71. mál: #A starfsemi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég skil vel áhuga hv. þm. á því að settar verði upp starfsstöðvar víðar á landinu en nú eru starfandi en þó endurspegla þessar starfsstöðvar markvissa tilraun til að efla tengslin við þá landshluta sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu, þar sem viðurhlutamest er að stunda fréttastarfsemi út frá höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna má segja að þær starfsstöðvar sem nú eru starfræktar hafi verið mjög eðlilega staðsettar.

Bættar samgöngur hafa leitt til að þessar starfsstöðvar eru virkari fyrir fjarlægari landshluta en þær voru áður. Sama gegnir að sjálfsögðu um Suðurland og Vesturland, að með bættum samgöngum er auðveldara að sinna þessum svæðum frá höfuðstöðvunum í Reykjavík. Það skiptir mestu máli að fréttaflutningur frá þessum svæðum sé mikill og stöðugur. Það skiptir líka mjög miklu máli að í dagskrárgerðinni og í dagskrárstefnunni endurspeglist sjónarmið fólksins úti á landi. Ég lít á það sem meginviðfangssefni en ég skil mjög vel áherslu hv. þm. á að þarna verði settar upp sérstakar starfsstöðvar.

Varðandi útbreiðslu Ríkisútvarpsins þá er hún mjög mikil. Þó næst ekki til allra landsmanna. Þó er enn alvarlegra mál, að það næst ekki til heyrnarskertra. Þar er allstór hópur skjólstæðinga Ríkisútvarpsins, kannski á bilinu 30 þúsund manns, sem eiga ekki aðgang að þessum miðli eins og tryggja þyrfti þeim. Ég lít á það sem forgangsverkefni í sambandi við útbreiðslu Ríkisútvarpsins að ná til þessa stóra hóps og leggja fram áætlun um með hvaða hætti það verði byggt upp. Ég þakka fyrir fyrirspurnina.