Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:50:23 (1102)

2002-11-06 13:50:23# 128. lþ. 24.2 fundur 92. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er nú gamall kunningi vegna þess að tilefnið gufar aldrei upp. Menn muna að mikið var um dýrðir 7. janúar 1999. Þá var stór dagur. Það dugði ekki minna til en fjórir ráðherrar á blaðamannafundi þegar kynnt voru hin glæstu áform ríkisstjórnarinnar um menningarhús á landsbyggðinni. Ef ég man rétt var yfirskrift átaksins: Til að menning og listir fái blómstrað. Svo mættu þeir þarna, hvort það var í Ráðherrabústaðnum eða hvar sem það var: Björn Bjarnason, þáv. hæstv. menntmrh.; hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, hvað sem utanrrn. hefur nú með menningarhús á landsbyggðinni að gera; hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og Páll Pétursson, hæstv. félmrh. Maður skyldi ætla að þessi áform væru þar með nokkuð grunnmúruð í stjórnskipuninni þegar allir þessir höfðingjar, meira og minna formenn og forustumenn flokka sinna auk þess að vera ráðherrar viðkomandi málaflokka, mættu þar í einum hóp og kynntu þessi glæstu áform.

Síðan eru, herra forseti, liðin þrjú ár og 10 mánuðir mínus einn dagur. Ríkisstjórnin er sú sama. Enn er samstarf sömu flokka og þarna voru við völd fyrir kosningarnar 1999. Ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár og 10 mánuði mínus einn dag, rétt tæplega heilt kjörtímabil, til að láta eitthvað gerast í málunum. En enn er þetta bara í athugun. Þannig standa þau mál.

Að sjálfsögðu voru aðstæður víða mismunandi og mismunandi úrlausnir komu til greina. Sem betur fer voru menn með opinn hug fyrir því að þetta gæti orðið nýbygging á einum stað eða endurgerð gamalla húsa á öðrum, allt er það hið besta mál.

Vel að merkja, herra forseti. Staðirnir sem til greina komu voru af einhverjum undarlegum ástæðum fyrir fram ákveðnir. Nefndir voru til sögunnar Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Egilsstaðir og Vestmannaeyjar og möguleiki á að þetta risi á fleiri stöðum.

Að minnsta kosti á einum stað, á Akureyri, tóku heimamenn þessum boðskap fagnandi, réttu strax fram höndina og buðu stjórnvöldum samstarf um að byggja menningarhús á Akureyri. Þar eru aðstæður þannig að ljóst er að um nýbyggingu yrði að ræða. Þar vantar sárlega húsnæði fyrir hluta af þeirri þróttmiklu lista- og menningarstarfsemi sem þar þrífst. Þar er gamalt leikhús sem svarar ekki að öllu leyti köllun tímans þó yndislegt sé. Þar vantar og algerlega húsnæði fyrir tónleikahald af þeim gæðum eða stærð sem hér um ræðir.

Maður hefði ætlað að a.m.k. samningur um kostnaðarskiptingu eða aðrir slíkir áfangar væru þegar að baki, ef ekki húsið beinlínis að rísa eða risið, hefðu menn tekið til hendinni. En svo er ekki. Þess vegna, herra forseti, neyðist ég til að spyrja einu sinni enn hér úr ræðustól á Alþingi út í efndir þessa kosningaloforðs síðustu ríkisstjórnar:

Hvað líður efndum fyrirheita ríkisstjórnarinnar frá því fyrir síðustu alþingiskosningar, sem kynnt voru 7. janúar 1999 af fjórum ráðherrum, um að koma upp menningarhúsum á landsbyggðinni?