Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:58:58 (1104)

2002-11-06 13:58:58# 128. lþ. 24.2 fundur 92. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er hafin enn ein lotan um þetta umræðuefni, menningarhús á landsbyggðinni, sem fyllti okkur öll af fögnuði fyrir meira en þremur árum þegar málið var tilkynnt hátíðlega.

Mig langar af því tilefni að minna á sal fyrir leikhús og tónleikahald sem reis á Selfossi fyrir áratugum í tengslum við hótelbyggingu sem hefur staðið óinnréttaður síðan. Nú stendur þannig á að ungir fjölbrautaskólanemar eru að æfa þar fyrir söngvakeppni næsta laugardagskvöld. Þarna er ekki hiti og engar innréttingar af neinu tagi. Þar er allt hálfkarað og ég verð að segja að mér þætti mjög mikilvægt ef hæstv. ríkisstjórn sæi sér fært að setja eitthvert framlag í þetta, þó ekki væri nema að koma hita í húsnæðið til að byrja með.