Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:09:17 (1109)

2002-11-06 14:09:17# 128. lþ. 24.3 fundur 113. mál: #A framhaldsskóli á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. hljóðar svo:

,,1. Hvað dvelur ákvörðun um stofnun nýs framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi sem stefnt hefur verið að á undanförnum árum?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að veitt verði framlag í fjárlögum næsta árs til stofnunar slíks skóla eins og sveitarstjórnir og íbúar í Snæfellsbæ, Grundarfirði, Helgafellssveit og Stykkishólmi hafa sóst mjög eftir?``

Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn. Svarið er svohljóðandi:

Undanfarin tvö, þrjú ár hafa farið fram umræður á milli ráðuneytisins og sveitarfélaga á Snæfellsnesi um stofnun og rekstur framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi. Jafnframt var í gangi tilraunaverkefni um fjarkennslu á framhaldsskólastigi í samvinnu Grundfirðinga og menntmrn. Við undirbúning málsins var það skilyrði sett af hálfu ráðuneytisins að skoðaðir yrðu möguleikar á alveg nýju námsfyrirkomulagi og skólum sem byggðu að verulegu leyti á nýrri upplýsingatækni, dreifnámi og fartölvuvæðingu. Ljóst er að svo fámennur skóli sem hér um ræðir mundi eiga í miklum erfiðleikum með að vera með nægilega breitt námsframboð nema með því að vera með mjög fámenna námshópa. Einnig má búast við að erfitt yrði að fá menntaða kennara að skólanum ef hann yrði rekinn með hefðbundnu sniði.

Í vor sem leið lágu fyrir allar upplýsingar og tillögur um stofnun framhaldsskóla Snæfellinga, heimamenn höfðu undirbúið málið vel og það var komið á ákvörðunarstig. Hins vegar hafa málefni framhaldsskóla á landsbyggðinni almennt, sérstaklega málefni verkmenntunar, verið til umfjöllunar í ráðuneytinu að undanförnu. Það er ljóst að einkum smærri framhaldsskólar eiga við talsverða erfiðleika að stríða og samkeppnisstaða þeirra er þröng. Verkmenntun á landsbyggðinni á undir högg að sækja vegna lítillar aðsóknar sem veldur því að námshópar eru mjög litlir og óhagkvæmir.

Við þessar aðstæður ákvað ég við undirbúning fjárlagagerðar að leggja áherslu á að tryggja stöðu starfandi framhaldsskóla einkum hvað varðar verkmenntunina. Af því leiðir að ekki var svigrúm til þess í fjárlagatillögum ráðuneytisins fyrir árið 2003 að stofna framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Í framhaldi af framansögðu er ekki gert ráð fyrir stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi í fjárlagafrv. næsta árs. Sveitarfélögum á Snæfellsnesi var tjáð þessi ákvörðun ráðuneytisins í bréfi, dagsettu 8. júlí sl.

Ég vil að lokum geta þess að í hinum dreifðu byggðum er sennilega ekkert mál eins mikilvægt og framhaldsnám. Sennilega er ekkert byggðamál eins mikilvægt og það að bjóða upp á framhaldsnám í hinum dreifðu byggðum. Það er mjög skiljanlegt að Snæfellingar hafi áhuga á að byggja upp framhaldsskóla. Ég geri fastlega ráð fyrir því að það yrði byggðarlaginu til mikillar uppbyggingar og mjög til framdráttar.

Það er hægt að segja það líka um smærri byggðarlög, t.d. Höfn í Hornafirði þar sem starfræktur er einn minnsti framhaldsskóli landsins að hann er kjölfestan í því byggðarlagi. Það er líka ljóst að framhaldsskólarnir á Húsavík og á Laugum eru mikilvægar stofnanir fyrir sín héruð og afar margt hefur byggst upp í kringum þessar stofnanir. Hins vegar er afar brýnt, ef farið verður út í stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi eða, eins og rætt hefur verið um, við utanverðan Eyjafjörð, að forsendur fyrir slíkri starfsemi séu mjög traustar. Það er ekki gott að fara af stað með slíka tilraunastarfsemi ef forsendurnar eru ekki traustar.

Ef við berum þetta saman t.d. við Höfn í Hornafirði þá er þar um að ræða til þess að gera einangrað landsvæði og nemendur leita til skólans í Höfn ekki síst vegna þess að ekki er um aðra valkosti að ræða nema fara þá langar leiðir til þess. Þessu er ekki til að dreifa við utanverðan Eyjafjörð þar sem tveir framhaldsskólar eru í nágrenninu. Engu að síður kunna forsendur fyrir framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð að breytast, þá ekki síst miðað við að jarðgöng tengi Siglufjörð við þetta svæði. Þar er mjög mikilsvert að forsendurnar séu sem traustastar.

Að því er varðar Snæfellsnes þá eru líka valkostir þar fyrir. En þeir eru þó í meiri fjarlægð en fyrir norðan. Það er með öðrum orðum afar eðlilegt og skiljanlegt að íbúar þessara svæða vilji byggja upp framhaldsnám á sínu svæði því það yrði sjálfsagt ein besta byggðaaðgerð sem hægt væri að grípa til. Ég er mjög jákvæður gagnvart þessum hugmyndum. En miðað við fjárlagaramma næsta árs sé ég mér ekki fært að leggja áhersluna á það og hef gert þeim grein fyrir því.