Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:21:55 (1115)

2002-11-06 14:21:55# 128. lþ. 24.3 fundur 113. mál: #A framhaldsskóli á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Mér finnst að hv. ræðumenn sem hafa lagt áherslu á þýðingu menntamála fyrir landsbyggðina, eins og sá sem hér stendur hefur gert, hafi farið svolítið fram úr sjálfum sér ef þeir álíta að íslenskt samfélag hafi ekki byggt upp menntun úti á landi. Ekkert samfélag í Evrópu hefur gengið eins langt og íslenska ríkið í að byggja upp menntun úti á landi. Hér eru reknir fámennir skólar við erfiðari aðstæður en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu. Við göngum lengra í að flytja menntunina til skjólstæðinga okkar en nokkurt annað samfélag. Við beitum m.a. til þess framhaldsskólum.

Við rekum smáa skóla hér og gerum það af mikum dugnaði. Það er bæði gert af hálfu ríkisins vel og myndarlega og skólarnir standa vel undir þessari miklu ábyrgð. Síðan göngum við lengra en nokkurt annað þjóðfélag í að flytja menntun til dreifbýlisins í gegnum tæknina.

Mér finnst að við ættum, um leið og við leggjum áherslu á hversu mikilvæg menntamálin eru fyrir byggðamálin, að viðurkenna það sem vel hefur verið gert. Ég þykist reyndar vita að allir þeir þingmenn sem hér eru inni og hafa tekið þátt í þessari umræðu meti þetta mikils. Mér heyrðist líka sem þeir væru mér sammála um að ástæða væri til að styrkja stöðu verkmenntunarinnar en staða hennar er veik vegna þess að námshóparnir eru smáir. Vegna þess hve langt við teygjum okkur til að reka smáa skóla verða námshóparnir smáir eðli málsins samkvæmt. Það er forgangsverkefni að koma til móts við þetta. Síðan munum við einnig líta á hitt málið.