Orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:07:19 (1128)

2002-11-06 15:07:19# 128. lþ. 24.6 fundur 160. mál: #A orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hefur lagt fram fyrirspurn til mín og fyrsta spurningin er þessi:

,,Hver hefur þróun gjaldtaxta verið frá því að ríkið tók við rekstri Orkubús Vestfjarða:

a. taxta einstaklinga,

b. taxta iðnfyrirtækja?``

Orkubú Vestfjarða varð að hlutafélagi 1. júlí 2001 og í apríl 2002 var fyrirtækið að fullu komið í eigu íslenska ríkisins. Orkubú Vestfjarða hf. er sjálfstætt fyrirtæki og yfir því er stjórn sem eigandi þess kaus á aðalfundi 3. maí sl. Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækkuðu um 4,9% frá 1. júlí 2001 og um 3% frá 1. ágúst sl. Þessar hækkanir eru ívið minni en almennar verðlagshækkanir og hliðstæðar hækkanir annarra orkufyrirtækja. Hækkanir þessar náðu jafnt til heimila og fyrirtækja.

Og önnur spurningin er:

,,Hvaða áætlanir eða áform eru uppi hjá Orkubúi Vestfjarða um þróun gjaldskrár á þessu ári og næstu tveimur árum, 2002--2004:

a. gjaldskrár einstaklinga,

b. gjaldskrár iðnfyrirtækja?``

Ekki eru uppi áform um hækkun gjaldskráa Orkubús Vestfjarða umfram verðlagshækkanir á næstu árum en það er á valdi stjórnar fyrirtækisins að taka slíkar ákvarðanir.