Orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:08:48 (1129)

2002-11-06 15:08:48# 128. lþ. 24.6 fundur 160. mál: #A orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra frá hæstv. ráðherra að alls ekki séu uppi áform um að hækka raforkuverð hjá Orkubúi Vestfjarða umfram það sem eðlilegt má teljast. Það er vel. Ég minni á að þó að ríkið sé búið að kaupa Orkubú Vestfjarða á það ekki að breyta neinu um hvernig fyrirtækið er rekið eða staðsett, raunar enn síður. Ef ríkið er eini eigandinn að fyrirtækinu þá eru miklu hægari heimatökin með staðsetninguna og starfsemina.

Ég vil taka það fram við þessa umræðu, herra forseti, að ég vona að ekki verði dregið úr starfsemi orkubúsins á einn eða annan hátt þótt ríkið sé orðið eigandi þess, enda er ábyrgðin meiri þar.