Orkuverð á Sauðárkróki

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:22:13 (1136)

2002-11-06 15:22:13# 128. lþ. 24.7 fundur 161. mál: #A orkuverð á Sauðárkróki# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að mótmæla því harðlega þegar hæstv. iðnrh. kýs að svara spurningum mínum með útúrsnúningum. Staðreyndin er sú að þessi breyting leiðir til þess að iðnaðarfyrirtæki á Sauðárkróki horfast í augu við 16% hækkun á raforkuverði. (JB: Það er miklu meiri hækkun.) Það eru staðreyndir málsins og í sumum tilfellum miklu, miklu hærra. Er þetta t.d. gott innlegg í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni? Að snúa málum þannig gagnvart mér, virðulegi forseti, og túlka ummæli mín þannig að ég sé á móti jöfnun --- hvernig í ósköpunum getur hæstv. ráðherra talað á þennan hátt þegar hún er fullmeðvituð um að ég hef þráfaldlega lagt til aukin framlög úr ríkissjóði til Rariks til að mælta hinum svokallaða óarðbæra hluta dreifikerfisins?

Hæstv. ráðherra tekur undir þessi orð núna með því að segjast hugsanlega koma fram með 500--600 millj. í þessu skyni. Ég er ekki á móti jöfnun. Ég vil öðruvísi vinnubrögð við jöfnun. Ég hef talað fyrir framlögum úr ríkissjóði. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um framsetningu mína í málinu. Það að snúa þessari umræðu og fyrirspurninni upp í túlkun á orðum mínum og stefnu minni og minna félaga á þann hátt sem hér er gert er tilraun til þess að drepa umræðu um mistakamál á dreif. Sauðkrækingar standa frammi fyrir gríðarlegri hækkun á orkuverði, 16% og kannski miklu meira. Þessi mál þarfnast miklu meiri umræðu.