Framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:30:18 (1139)

2002-11-06 15:30:18# 128. lþ. 24.8 fundur 178. mál: #A framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson hefur lagt fram fyrirspurn til mín. Fyrsta spurningin er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Hve há voru framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða á landsbyggðinni hvert ár síðustu fjögur ár og hvar á landinu eru þau?``

Svarið er eftirfarandi: Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar námu heildargreiðslur stofnunarinnar til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni rúmum 528 millj. kr. á árinu 1999 og fram til þess sem af er ársins 2002. Árið 1999 námu framlögin 172 millj. 381 þús. kr. til fjögurra eignarhaldsfélaga. Eitt þeirra var á Reykjanesi, eitt á Austurlandi, eitt á Vesturlandi og eitt á Norðurlandi. Árið 2000 greiddi Byggðastofnun 98 millj. og 478 þús. kr. til sex eignarhaldsfélaga. Eitt er á Suðurlandi, eitt á Reykjanesi, eitt á Vesturlandi, eitt á Vestfjörðum, eitt á Norðurlandi og eitt á Austurlandi. 121 millj. kr. var greidd árið 2001 og 141 millj. kr. hefur verið greidd það sem af er árinu 2002. Auk þess námu ógreidd loforð um 177 millj. kr. þann 15. okt. sl. Samtals hefur stofnunin því ráðstafað um 700 millj. kr. til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni.

Á gildistímabili áætlunarinnar fyrir árin 1999--2001 námu heildarframlög ríkissjóðs til eignarhaldsfélaga með þátttöku Byggðastofnunar 900 millj. kr. Þegar tekið hefur verið tillit til þess að stofnunin hafði þann 15. október sl. ráðstafað 700 millj. kr. þá er 200 millj. kr. enn óráðstafað.

Skilyrði fyrir framlagi Byggðastofnunar til einstakra félaga er að félögin nái að safna framlögum í heimahéraði frá sveitarfélögum, lífeyrissjóðum, fyrirtækjum og einstaklingum. Eignaraðild Byggðastofnunar má ekki verða meiri en 40% í hverju félagi fyrir sig. Misvel hefur gengið að safna mótframlaginu. Það skýrir það að enn sem komið er hefur stofnunin ekki ráðstafað öllu því fé sem hún fékk á árunum 1999--2001 til eignarhaldsfélaga. Árið 1999 greiddi Byggðastofnun 172 millj. og 381 þús. kr. til fimm eignarhaldsfélaga, tvö félög voru á Reykjanesi, eitt á Austurlandi, eitt á Vesturlandi og eitt á Norðurlandi. Árið 2000 greiddi Byggðastofnun 98 millj. og 478 þús. kr. til sex eignarhaldsfélaga. Eitt þeirra var á Suðurlandi, eitt á Reykjanesi, eitt á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Árið 2001 greiddi Byggðastofnun 120 millj. og 791 þús. kr. til þriggja eignarhaldsfélaga sem eru á Reykjanesi, Norðurlandi og Suðurlandi. Árið 2002 greiddi Byggðastofnun 141 millj. og 436 þús. kr. til fjögurra eignarhaldsfélaga. Tvö þeirra voru á Suðurlandi en eitt á Reykjanesi og eitt á Norðurlandi.

Annar liður fyrirspurnarinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hver er ástæða þess að hætt er að veita þessi framlög?``

Svar: Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar eru enn til ráðstöfunar 200 millj. kr. til eignarhaldsfélaga. Þessum fjármunum verður varið til eignarhaldsfélaga í samræmi við reglur stofnunarinnar. Í fjárlögum ársins 2002 var gert ráð fyrr að verja 200 millj. kr. til Byggðastofnunar vegna eignarhaldsfélaga. Á fundi ríkisstjórnarinnar í sumar var tekin ákvörðun um að leggja til við Alþingi að þessum fjármunum yrði frekar varið til þess að framkvæma byggðaáætlun 2002--2005 sem Alþingi samþykkti sl. vor. Tillögur þar að lútandi er að finna í frv. til fjárlaga sem nú liggur frammi á Alþingi.