Leyniþjónusta

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:49:28 (1146)

2002-11-06 15:49:28# 128. lþ. 24.9 fundur 136. mál: #A leyniþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Nú á haustdögum voru hugmyndir fyrst viðraðar um leyniþjónustu svokallaða hér á landi, gott ef það var ekki á fundi 11. september sl. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að leyniþjónusta er gott og gegnsætt íslenskt orð og lýsir ágætlega þeirri starfsemi sem fer fram innan slíkrar stofnunar. Ég held að flestir geri sér í hugarlund hvað það er.

Umræðan hefur verið nokkuð einkennileg, verð ég að segja, herra forseti, því að fyrst er varpað fram hugmynd, óljósri þó, og síðan um leið og ráðuneytið er byrjað að ræða málin fer það að draga í land. Svo kemur í ljós að í raun er verið að tala um starfsemi sem nú þegar fari fram en ekkert eftirlit sé með. Mér finnst þetta mál og umræðan um hugsanlega leyniþjónustu mjög einkennilega vaxið. Mér finnst hæstv. dómsmrh. í raun ekki hafa svarað því hvað hún hafi í hyggju og hver hin raunverulega þörf fyrir leyniþjónustu á Íslandi sé.